Skapandi Guðrún Ingimarsdóttir og Lars Jönsson utan við Hannesarholt.
Skapandi Guðrún Ingimarsdóttir og Lars Jönsson utan við Hannesarholt. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Ástir kvenna, örlög og ástríður er yfirskrift ljóðatónleika sem fram fara í Hannesarholti í kvöld kl. 20 þar sem fram koma Guðrún Ingimarsdóttir sópransöngkona og Lars Jönsson píanóleikari.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Ástir kvenna, örlög og ástríður er yfirskrift ljóðatónleika sem fram fara í Hannesarholti í kvöld kl. 20 þar sem fram koma Guðrún Ingimarsdóttir sópransöngkona og Lars Jönsson píanóleikari.

„Okkur langaði að gera prógramm um hinar ólíku kventýpur. Fyrri hluta kvölds flytjum við rómantísk sönglög eftir Robert og Clöru Schumann og Franz Schubert, við ljóð eftir Friedrich Rückert og J.W. Goethe,“ segir Guðrún og tekur fram að Goethe hafi ávallt verið sér mjög hugleikinn. „Frá því ég fluttist til Þýskalands fyrir um tveimur áratugum hafa ljóð hans alltaf staðið mér nærri. Fyrstu árin eftir að ég flutti út var ég oft hjá vinafólki sem stóð reglulega fyrir menningarkvöldum þar sem húsbóndinn á heimilinu fór yfirleitt með ljóð eftir Goethe utanað,“ segir Guðrún og bendir á að ljóð Goethe séu líka áberandi í þýskum sönglögum.

„Þegar tvö séní mætast, eins og gerist í lögum Schubert við ljóð Goethe þá hreyfir það mjög við mínum innri myndheimi,“ segir Guðrún.

Tími mikilla andstæðna

„Við Lars erum bæði heilluð af andrúmsloftinu sem ríkti í Berlín milli heimsstyrjaldanna, þegar Þýskaland varð í fyrsta sinn í sögu sinni lýðveldi. Þetta er tími mikilla andstæðna þar sem ríkti kreppa á sama tíma og kabarettinn blómstraði. Seinni hluti kvöldsins er því helgaður þessum tíma,“ segir Guðrún sem flytur lög eftir m.a. Kurt Weil, Friedrich Hollaender og Erich Korngold. „Korngold var undrabarn í tónlist og skrifaði bæði óperur og kammermúsík, en flúði til Bandaríkjanna þar sem hann öðlaðist frægð fyrir kvikmyndatónlist sína.“

Guðrún hélt síðast tónleika hérlendis í ágúst á síðasta ári. „Ég kem reglulega heim, því mér finnst nauðsynlegt að anda að mér íslenska fjallaloftinu. Það fylgir því alltaf tilhlökkun að syngja fyrir íslenska áheyrendur,“ segir Guðrún.

Hafa lengi starfað saman

Spurð um samstarfið við sænska píanóleikarann Lars Jönsson, sem líkt og hún býr og starfar í Stuttgart, segir hún það afar gott. „Við höfum starfað lengi saman og haldið fjölda ljóðatónleika með norræna tónlist í Þýskalandi, en þetta er fyrsta ferð hans til Íslands. Við erum um þessar mundir að undirbúa tónleika sem haldnir verða í Leipzig, Genf og Stuttgart með vorinu í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Á efnisskránni verða verk eftir íslensk tónskáld sem lærðu í Þýskalandi,“ segir Guðrún og bendir á að þeirra á meðal séu Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Emil Thoroddsen, Páll Ísólfsson, Jón Leifs, Jórunn Viðar og Atli Heimir Sveinsson.