Guðbrandur Einarsson
Guðbrandur Einarsson
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Aðalfundur Verslunarmannafélags Suðurnesja verður haldinn í endaðan apríl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Aðalfundur Verslunarmannafélags Suðurnesja verður haldinn í endaðan apríl. Guðbrandur Einarsson, formaður félagsins til tuttugu ára, frá 1998, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að mótframboð, bæði gegn formanni og stjórn, hefði borist.

„Það er rétt. Það er komið fram mótframboð gegn sitjandi stjórn. Það gæti því farið svo að kosið yrði á milli tveggja lista, lista sitjandi stjórnar og lista nýja framboðsins,“ sagði Guðbrandur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Aðspurður hverjir skipuðu lista mótframbjóðendanna sagði Guðbrandur að á þessu stigi væri ekki hægt að upplýsa um það, þar sem listi þeirra væri enn í meðförum kjörstjórnarinnar.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, mun kjörstjórnin hafa haft ákveðnar athugasemdir við lista mótframbjóðendanna, og því tekið hann til gagngerrar skoðunar. Þetta sagðist Guðbrandur hvorki geta né vilja ræða, þegar hann var spurður út í þetta atriði.

Rafræn atkvæðagreiðsla

Guðbrandur segir að aldrei hafi annað staðið til en hann byði sig á nýjan leik fram til formennsku í félaginu, og þau áform muni ekki breytast, þrátt fyrir mótframboð. „Enda hef ég ekki fundið fyrir neinni gagnrýni á mín störf hér,“ sagði Guðbrandur.

Aðspurður hvort hann teldi að mótframboðið væri eitthvað skylt því sem kallað hefði verið „Vor í verkó“ sagði Guðbrandur: „Ég hef séð Facebókarfærslu þar sem talað er um „Vor í Versló“.“

Guðbrandur segir að verði um kosningu að ræða verði hún með rafrænum hætti. Henni eigi að vera lokið fyrir aðalfund og hann eigi því von á því að atkvæðagreiðslan fari fram um miðjan apríl.