Katrín Jóhanna Gísladóttir fæddist 19. janúar 1917. Hún lést 10. febrúar 2018.

Útför Katrínar fór fram 23. febrúar 2018.

Þá er hún elsku amma mín loksins búin að fá hvíldina sína, amma mín með hlýlega brosið sitt og góða skapið. Hún náði ótrúlega háum aldri, heilu 101 ári, en hún var orðin lúin undir það síðasta.

Amma mín, eða amma Stigó eins og við kölluðum hana, bjó í Stigahlíðinni í húsi sem afi minn byggði og voru nýflutt þar inn þegar ég byrjaði að muna eftir mér. Þar bjuggu þau og var mikið um gestagang og sérstaklega vorum við stórfjölskyldan mikið hjá þeim. Amma mín var heimavinnandi kona og tók t.d. aldrei bílpróf. Það fannst henni algjör óþarfi, alveg nóg að afi væri með próf.

Mín skólaganga byrjaði í Ísaksskóla þar sem ég og Rikki frændi tókum strætó í skólann á morgnana. Eftir skóla gekk ég áleiðis heim til ömmu og hún mætti mér áður en ég fór yfir Miklubrautina og passaði að ég færi nú örugglega ekki einn yfir hana.

Ég minnist hennar best þar sem hún er heima í Stigahlíðinni að elda heitan mat í hádeginu fyrir afa sem kom heim þá, borðaði og lagði sig með Þjóðviljann yfir höfðinu og af henni að búa til eitthvert góðgæti eins og uppáhaldið mitt, lagköku.

Hún amma mín naut þess að spila á spil, við spiluðum mikið spilið þjóf sem snýst um það að maður á að reyna að stela spilum af mótspilaranum. Þetta spiluðum við á næstum því hverjum einasta degi eftir að ég kom heim úr skóla og líka eftir að ég varð eldri. Ég man hvað ég var ótrúlega sigursæll í þessum spilum en eftir smá umhugsun, þegar ég varð eldri, þá áttaði ég mig á því hver hafði stjórnað sigrunum í þessum spilum okkar ömmu, en þetta var svo innilega hún amma mín sem brosti sínu hlýlega brosi og vildi allt fyrir aðra gera.

Hún amma mín var trúrækin kona og dugleg að kenna barnabörnunum bænir og passaði upp á að við færum örugglega með bænirnar áður en við færum að sofa.

Síðustu árin voru ömmu nokkuð erfið þar sem hún var orðin háöldruð en nokkuð ern framan af og ekkert vantaði upp á góða skapið en líkaminn var farinn að gefa sig.

Elsku amma mín, takk fyrir samveruna og fyrir að vera svona góð við mig.

Ég mun sakna þín.

Jóhann Þorsteinn

Hilmarsson.