[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Nærri aldargamalt morðmál komst aftur í sviðsljósið í Frakklandi nýlega eftir að beinaleifar fundust í húsi þar sem maður, sem dæmdur var fyrir morðið, bjó.

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Nærri aldargamalt morðmál komst aftur í sviðsljósið í Frakklandi nýlega eftir að beinaleifar fundust í húsi þar sem maður, sem dæmdur var fyrir morðið, bjó. Vonir um að beinin myndu varpa nýju ljósi á málið urðu hins vegar að engu þegar í ljós kom að beinin voru úr dýrum.

Málið minnir að sumu leyti á Guðmundar- og Geirfinnsmálið hér á landi. Guillaume Seznec var árið 1924 dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að myrða Pierre Quemeneur, viðskiptafélaga sinn, þótt lík Quemeneurs hafi aldrei fundist og heldur ekki morðvopnuð. Seznec hélt ávallt fram sakleysi sínu og reyndi meðan hann lifði ítrekað að fá málið tekið upp að nýju.

Beinin fundust í febrúar þegar grafið var í kjallara húss þar sem Seznec bjó áður, að undirlagi Denis Langlois, fyrrverandi lögfræðings Seznecs, og rithöfundarins Bertrands Vilains, sem hefur skrifað bók um málið. Þeir hafa komið fram með þá kenningu að eiginkona Seznecs kunni að hafa orðið Quemeneur að bana fyrir slysni þegar hún var að verjast ágengni hans og að líkið hafi verið grafið í kjallara hússins.

Engin sönnunargögn

Málið hófst í maí árið 1923 þegar Seznec, sem var timburkaupmaður, ferðaðist ásamt Quemeneur til Parísar til að kaupa bíla, sem bandaríski herinn skildi eftir þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Seznec kom einn til baka nokkrum dögum síðar og sagði að Quemeneur hefði ætlað að taka lest heim til sín.

Quemeneur var sagður hafa sent símskeyti frá Le Havre þar sem hann sagðist ætla að koma heim eftir nokkra daga. Til hans sást aldrei framar og lögregla hélt því fram að Seznec hefði í raun sent símskeytið.

Seznec var ákærður fyrir morð og þótt hann héldi fram sakleysi sínu og engin sönnunargögn lægju fyrir dæmdi kviðdómur hann til ævilangrar þrælkunarvinnu í fangabúðum Frakka í Frönsku-Gíneu, væntanlega þeim sömu og Henri Charrière, sem nefndur var Papillon, tókst að flýja frá eins og hann lýsti í frægri bók. Síðar var gerð kvikmynd eftir bókinni með Steve McQueen í aðalhlutverki.

Náðaður

Seznec var látinn laus árið 1946 vegna góðrar hegðunar; Charles de Gaulle, nýr forseti Frakklands, náðaði hann. Seznec hafði áður hafnað því að sækja um náðun og sagði að einungis þeir seku sæktu um slíkt. Hann snéri aftur til Frakklands, niðurbrotinn á sál og líkama en eiginkona hans og elsti sonur höfðu látist á meðan hann var í fangelsi. Seznec lést árið 1953 eftir að hann varð fyrir vörubíl á götu í París og ökumaðurinn flúði af vettvangi. Seznec var þá 69 ára.

Seznec barðist fyrir því meðan hann lifði, að fá mál sitt tekið upp að nýju. Eftir dauða hans hélt fjölskylda hans þeirri baráttu áfram með stuðningi þingmanna, dómara og blaðamanna. Lögreglumaðurinn sem handtók hann, Pierre Bonny, er sagður hafa lýst því yfir, skömmu áður en hann var tekinn af lífi fyrir samstarf við þýsku öryggislögregluna Gestapo í síðari heimsstyrjöldinni, að hann iðraðist þess að hafa sent saklausan mann í fangelsi. En saksóknarar hafa ávallt hafnað þessum óskum, alls 14 sinnum og síðast árið 2006.

Mál Seznecs er vel þekkt í Frakklandi. Gerðar hafa verið sjónvarpskvikmyndir um málið og einnig leikrit, sem sett var á svið í París árið 2010 byggt á réttarhöldunum yfir Seznec. Í lok leiksýninganna voru áhorfendur beðnir að kveða upp sinn dóm og að jafnaði töldu 90% leikhúsgesta að Seznec væri saklaus.

Langlois og Vilain telja að eiginkona Seznecs kunni að vera morðinginn vegna vitnisburðar Guillaume, eins sona Seznec-hjónanna. Langlois fullyrðir í bók, sem kom út árið 2015, að árið 1978 hafi Guillaume sagt frá því, að hann hafi heyrt móður sína reyna að verjast Quemeneur og síðan séð hann liggja á gólfinu.

„Ég held að hún hafi orðið að verja sig og slegið hann í höfuðið,“ hefur Langlois eftir Guillaume, sem var 11 ára þegar þessir atburðir gerðust. Foreldrar hans hafi látið sig sverja að hann myndi ekki segja frá þessu.

Langlois og Vilain segjast ætla að halda áfram að rannsaka hús fjölskyldunnar. Ekki er búið í húsinu en eigandi þess hefur veitt leyfi fyrir þessari rannsókn sem lögregla hefur nú tekið við.

En Denis Seznec, sonarsonur Seznecs, sem einnig hefur reynt árum saman að sanna sakleysi afa síns, segist ekki hafa trú á þessari kenningu. Hann segist hafa sínar eigin kenningar um hver morðinginn hafi verið en vill ekki upplýsa að svo stöddu hverjar þær eru.