Blóðvöllur Tyrkja og Kúrda er í landamærahéruðum Sýrlands, Íraks og Tyrklands. Annar völlur átaka er í Þýskalandi

Í sínu fallega ættjarðarkvæði, sem vann ásamt öðrum til verðlauna í tengslum við Lýðveldishátíðina, sagði skáldkonan Hulda um hið nýfrjálsa land sitt: „Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð.“

Það mátti til sanns vegar færa að fjarlægðin var löngum nokkur vörn fyrir þjóð við ysta haf gegn utanaðkomandi illindum. Á því voru þó margar undantekningar á fyrri öldum. Þjóðin sjálf átti svo sem löngum við nægan annan vanda að fást, kólnandi loftslag og eldspúandi fjöll.

Og þegar ljóðið góða var frumflutt stóð heimsstyrjöld sem hæst og landið var setið af erlendum her, samkvæmt samkomulagi við íslensk yfirvöld, en hafði áður verið hernumið að þjóðinni forspurðri.

Síðan þetta var hefur ný tækni gert sífellt minna úr varnargildi fjarlægðar, þótt enn megi hún sín nokkurs, og þá helst ef forsvarsmenn landsins kjósa það. Um það kann að ríkja nokkur vafi.

Menn voru minntir á það að stríð eða hernaður af öðrum toga, sem koma okkur auðvitað óbeint við sem manneskjum, geta einnig með óvæntum og dapurlegum hætti gert það beint. Þá bárust fréttir um að ungur Íslendingur hefði sennilega fallið í loftárásum Tyrkjahers sem beindust að Kúrdum.

Í þessu sambandi er fróðlegt að sjá hvernig atburðir innan landamæra Sýrlands hafa áhrif annars staðar. Þá kemur Þýskaland sérstaklega sterkt inn í myndina. Þar er nú stærsta nýlenda Kúrda utan Kúrdahéraðanna, því að talið er að um ein milljón Kúrda búi í Þýskalandi. Og þegar við þá mynd bætist að nærri fjórar milljónir Tyrkja eða fólks af tyrknesku bergi brotið eru taldar búa í Þýskalandi þarf ekki að koma á óvart þótt tilfinningahita vegna hernaðarins gæti meira þar en í flestum löndum öðrum. Þetta mátti t.d. sjá af fréttum Die Welt í vikunni. Þar sagði að þúsundir Kúrda hefðu tekið þátt í mótmælum í Þýskalandi gegn innrás Tyrkja í Afrin. Um 900 mótmælendur náðu að trufla jarnbrautaferðir frá Hamborg um hríð. Og á flugvellinum í Düsseldorf urðu átök á milli tyrkneskra þjóðernissinna og lögreglu.

Og í Berlín var kveikt í Koca Sinan-mosku, guðshúsi í eigu tyrkneskra múslíma. Og í öðrum borgum var molotov-sprengjum kastað í bænahús Tyrkja og inn í samkomustaði þýsk-tyrkneskra vináttufélaga.

Die Welt segir að mótmæli gegn hernaðaraðgerðum í Afrin fari nú dagvaxandi í Þýskalandi eftir því sem hersveitir Erdogans herða sinn róður þar. Hefur forsetinn sagt að aðgerðum hersins verði ekki hætt þar fyrr en verki hans sé lokið.

Það lofar ekki góðu.