Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson
Eftir Ómar Ragnarsson: "Báðir kostir fái jafn vandaða meðferð varðandi forsendur, upplýsingar og aðfengna erlenda sérfræðinga. Meirihluti þeirra sem málið varðar er ófæddur."

Best hannaða sjúkrahús í Evrópu í Osló?

2005 fór ég í Norðurlandaferð þar sem leiðin lá meðal annars til Oslóar og Þrándheims. Þar skoðaði ég tvö ólík sjúkrahús og tók myndir og viðtöl sem gætu átt erindi heima á Fróni vegna spurninga og álitamála varðandi nýtt þjóðarsjúkrahús. Í Osló höfðu menn fundið auða lóð eins miðsvæðis og unnt var á norska höfuðborgarsvæðinu með greiðum samgöngum í allar áttir. Hannað var og reist sjúkrahús frá grunni í stað þess að reyna að endurbæta eða reyna „bútasaum“ á sjúkrahúsinu sem þá var í Osló. Horft var eins langt fram og unnt var, til hálfrar aldar hið minnsta, og hafður í huga heildarávinningur af framtíðarlausn, þótt hún kynni að kosta eitthvert fé á því tímabili, sem hið nýja hús væri að rísa á meðan hið gamla væri í notkun. Í samtölum við íslenska og norska lækna kom fram að sjúkrahúsið þætti svo vel heppnað, að jafnvel væri talað um að það væri best hannaða sjúkrahús Evrópu.

„Víti til varnaðar“ í Þrándheimi?

Þegar ég spurði um sjúkrahús, sem hefði verið stækkað og endurbætt líkt og til stæði á Íslandi bentu þeir á sjúkrahúsið í Þrándheimi. Upplagt mál – ekkert erlent búsvæði líkist meira suðvesturhorni Íslands hvað snertir stærð, mannfjölda, veðurfar, kjör og menningu en Þrændalög og Þrándheimur. Sjúkrahúsið þar hlítti vel kröfum fjölmiðlunar um jafnræði í upplýsingagjöf með því að fjalla um tvær ólíkar lausnir varðandi framtíðarsjúkrahús. Tveir viðmælendur mínir nefndu „víti til varnaðar“ varðandi „bútasauminn“ í Þrándheimi. Þegar þangað kom sást að lausnir voru svipaðar og ætlunin er að nota við Hringbraut, eldri byggingar notaðar, nýjar reistar og byggingaklasi myndaður, sem tengdur var saman með viðbyggingum og lokuðum brúm yfir götur á milli húsa í bland við undirgöng. Sjúkrahúsin í Osló og Þrándheimi vöktu spurningar sem gott væri að hafa til hliðsjónar heima á Fróni.

Endurbyggingarumræðan nær einráð á Íslandi

Það frestaðist, þegar heim kom, að búa til sjónvarpsfrétt um þetta, og þegar til stóð að halda læknaþing með fyrirlestri erlends sérfræðings um málið var ákveðið að geyma umfjöllun í sjónvarpi þar til þá. Og hver skyldi svo hafa haldið þennan fyrirlestur um þá aðferð sem hann var sérfræðingur í? Jú, efni fyrirlestursins var hvernig best væri að stækka og endurbæta eldri sjúkrahús!

Enginn annar sérfræðingur kom þar fram sem hafði aðra sýn á málið.

Það sem ég hafði komið með heim úr Noregsferðinni drukknaði í þeirri athygli sem hinn alþjóðlegi sérfræðingur fékk. Leið nú og beið í flóði frétta af spilaborg bankanna og viðskiptalífsins og ég fór á eftirlaun. Um síðir dúkkaði þó upp að talað yrði við erlendan sérfræðing um hönnun sjúkrahúsa í Kastljósi. Ég beið eftirvæntingarfullur, – nú myndi loks fást æskilegt jafnvægi í umræðuna. Svo kom viðtalið og geti nú lesendur þessarar greinar upp á hver átti lokaorð erlendra sérfræðinga í málinu – við hvern var talað. Jú, auðvitað snillinginn sem hannaði bútasauminn og „vítið til varnarðar“ í Þrándheimi! Málið útrætt, „game over“. Þarna saknaði ég hönnuðar sjúkrahússins í Osló.

Þegar umræðu er stýrt í krafti aðstöðu og handvalinna sérfræðinga

Allt frá 2005 hef ég haft efasemdir um stefnuna í Landspítalamálinu, stefnu, sem var tekin upp fyrir svo löngu að erfitt er að rekja feril þess aftur til raunverulegs upphafs. Ofangreint dæmi er umhugsunarefni varðandi það hvernig hægt er að beina umræðu í fjölmiðlum í ákveðinn farveg á þeim tíma þegar mest er þörf á að kryfja til mergjar mismunandi sjónarmið og kynna helstu forsendur og álitaefni. Almennt má segja að í flóknu alþjóðlegu tæknisamfélagi geti valdamiklir menn stýrt umræðu í krafti aðstöðu sinnar og þekkingar þeirra sérfræðinga sem þeir velja. Efasemdir mínar hafa ekki minnkað frá 2005 heldur jafnvel aukist. Margt hefur breyst síðan 2005, þegar víðtækar húsaskemmdir vegna myglu og vanhugsaðs sparnaðar í viðhaldi voru nær óþekktar hér á landi í þeim mikla mæli sem nú er. Enn er stórum spurningum ósvarað svo viðunandi sé.

Þetta ber að gera en hitt eigi ógert að láta

Mikið liggur við og mikið liggur á, satt er það. En þannig hefur það verið allan tímann og það á ekki að koma í veg fyrir það að tveir ólíkir kostir fá jafn vandaða meðferð varðandi forsendur, upplýsingar og aðfengna erlenda sérfræðinga til að meta til fulls, hver heildarkostaðurinn vegna mismunandi kosta verði til langs tíma, því að meirihluti þeirra sem málið varðar, er ófæddur. Ef í ljós kemur að endurbyggingastefnan sé betri, þá það, en ef í ljós kemur að við höfum gert mistök þegar til langs tíma er litið, er skylda okkar að hika ekki við að breyta um stefnu; – við skuldum komandi kynslóðum það. Sem vissa hliðstæðu má nefna að unnið var að brýnum endurbótum á vegi fyrir Hvalfjörð á sama tíma og verið var að vinna að gerð Hvalfjarðarganga. Um mál af þessu tagi kann nefnilega að gilda það sem Emil Björnsson, fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, sagði stundum um svipuð álitamál: „Þetta ber að gera en hitt eigi ógert að láta.“

Höfundur er áhugamaður um kjör og jafnrétti borinna og óborinna kynslóða. omarr@ruv.is