Magnús S. Oddsson fæddist 30. nóvember 1925. Hann lést 15. febrúar 2018.

Magnús var jarðsunginn 28. febrúar 2018.

Magnús Oddsson var alla tíð stór partur af lífi okkar systra. Hann var traustur og góður fjölskylduvinur og við vorum líka vinnufélagar í Poulsen í áratugi. Magnús var afskaplega ljúfur og léttur í lund. Hann var víðlesinn og fróður um margt og maður kom aldrei að tómum kofunum hjá honum. Eftir að fyrirtækið var selt árið 2001, ræktaði Magnús vináttuna vel og var duglegur að heimsækja okkur allar til skiptis. Hann kom líka í áraraðir til okkar á gamlárskvöld og fagnaði áramótum með okkur.

Magnús hafði áhuga á mörgu og það var gaman að spjalla við hann um daginn og veginn. Hann var alltaf í góðu skapi. Hann var laglegur maður og í gamla daga voru margar dömur sem gerðu sér ferð inn í verzlun Vald. Poulsen sem þá var á Klapparstíg, til þess eins að ná tali af Magnúsi. Eins voru margir fastakúnnar sem sóttust eftir að tala við hann og voru til í að bíða eftir að Maggi væri laus til að afgreiða þá, enda var hann allt í öllu í búðinni.

Magnús hafði gaman af því að ferðast, bæði innanlands og utan. Hann var mikill bridsáhugamaður og var heimilið hans í Valshólum fullt af verðlaunagripum sem hann hafði unnið til um ævina. Hann var við góða heilsu, alveg fram undir það síðasta og gat spilað brids með félögunum í hverri viku. Hann ók bíl fram yfir nírætt og ræktaði gott samband við sína nánustu. Magnús var hvers manns hugljúfi, tryggur og trúr, og forréttindi að eiga slíkan samferðamann.

Við systurnar sendum hans nánustu samúðarkveðjur.

Sigríður, Margrét og

Matthildur Ingvarsdætur.