Guðmundur Snorrason fæddist 19. janúar 1931 á Breiðabólstað á Síðu í V-Skaftafellssýslu. Hann lést á Landspítala við Hringbraut 28. febrúar 2018. Faðir hans var Snorri Halldórsson, f. 18.10. 1889, d. 15.7. 1943, og móðir Guðbjörg Tómasdóttir, f. 3.10. 1909, d. 6.3. 1986.

Guðmundur kvæntist Bryndísi Charlotte Elíasdóttur, f. 27.11. 1929, d. 11.5. 2016. Þau giftust þann 31.12. 1951 og eignuðust þrjú börn, fjögur barnabörn og fimm barnabarnabörn. Guðmundur vann hjá Flugfélagi Íslands á árunum 1957-1974 sem yfirflugumsjónarmaður og síðar Flugleiðum hf. sem flugþjálfunarstjóri 1974-1990. Öryggismál í flugi voru honum ofarlega í huga enda var hann í Alþjóða flugöryggisráðinu 1964-1990 og var sæmdur heiðursskjali af Alþjóða flugöryggisráðinu.

Útför Guðmundar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 16. mars 2018, klukkan 15.

Elsku, elsku pabbi minn, sorg mín er óendanleg, eins og hún Valan okkar sagði, mér er svo illt í hjartanu mamma, ég tek undir það. Ég get endalaust skrifað um þig en ætla ekki að gera það, bara geyma það í hjarta mínu. Þú lifðir samkvæmt æðruleysisbæninni,

Guð – gef mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og visku til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,

njóta hvers andartaks fyrir sig,

viðurkenna mótlæti sem friðarveg,

með því að taka syndugum heimi

eins og hann er,

eins og Jesús gerði

en ekki eins og ég vil hafa hann

og treysta því að þú munir færa allt

á réttan veg

ef ég gef mig undir vilja þinn

svo að ég megi vera hæfilega

hamingjusamur í þessu lífi

og yfirmáta hamingjusamur með þér

þegar að eilífðinni kemur.

Amen.

(Reinhold Niebuhr)

Þú varst seint reittur til reiði, á minni ævi hef ég tvisvar sinnum séð þig skipta skapi. Ég er endalaus þakklát fyrir þig og þú varst mér stoð og stytta í mínu lífi.

Mig langar til að segja eina litla sögu, það var þegar ég um 10 ára aldur þá lá ég veik heima og kúrði í pabbabóli. Þú kemur heim með hann Vilhjálm Vilhjámsson og kemur með hann inn til mín þar sem hann settist á rúmstokkinn hjá mér og syngur fyrir mig lag sem síðan hefur verið okkar lag, pabbi, við höfum oft rifjað þessa sögu upp. Læt texta af þessu lagi fylga með og kveð þig með trega.

Í hinsta sinn að heiman lágu spor mín

því ég hamingjuna fann ei lengur þar

og hratt ég gekk í fyrstu uns ég heyrði fótatak

og háum rómi kallað til mín var.

Kallað: Bíddu pabbi, bíddu mín,

bíddu því ég kem til þín.

Æ, ég hljóp svo hratt

að ég hrasaði og datt,

bíddu pabbi, bíddu mín.

Ég staðar nam og starði á dóttur mína

er þar stautaði til mín svo hýr á brá

og mig skorti kjark að segja henni að bíllinn biði mín

að bera mig um langveg henni frá.

Hún sagði: Bíddu pabbi...

Ráðvilltur ég stóð um stund og þagði

en af stað svo lagði aftur heim á leið.

Ég vissi að litla dóttir mín, hún myndi hjálpa mér

að mæta vanda þeim sem heima beið.

Hún sagði: Bíddu pabbi...

Elska þig pabbi minn, ég er og verð alltaf þín litla dóttir.

Eva Björg Guðmundsdóttir.

Elsku afi minn.

Það sem lífið er búið að vera skrítið og tómlegt án þín, mig verkjar svo í hjartað án þín.

Vildi segja þér að þú ert besti vinur minn og uppáhaldsmanneskjan mín öllum heiminum.

Þú hefur alltaf verið til staðar þegar lífið hefur verið erfitt og þegar mig hefur bara vantað afa minn. Lífið okkar Emblu mun verða mjög tómlegt án þin og Embla er ennþá að leita að þér og við viljum fá afa aftur heim.

Tímarnir okkar og minningarnar eru svo margar og mikilvægar fyrir mér að ég á erfitt að velja mér upphaldsminningu sem við áttum saman en það sem breytti mér eru allir bíltúrarnir sem við áttum um Reykjavík og þökk sé þér rata ég út um alla Reykjavík og þekki söguna þína um Reykjavík. Ást mín á ís kemur frá öllum þessum ísbíltúrum okkar þegar ég var lítil.

Síðustu þrjú árin okkar hérna heima í Gnoðarvogi hafa verið yndisleg og hafa kennt mér svo margt. Við áttum svo góða tíma og gerðum svo margt saman. Ef það var ekki heima að hafa kósí með ís eða horfa á mynd þá fórum við út að borða eða í bíltúr saman og auðvitað Embla alltaf með okkur í för.

Ég sakna þess að sitja inní stofu að horfa á sjónvarpið eða sauma og þú kíkir inn til mín bara til að forvitnast um hvað ég væri að gera eða bara kíkja á mig.

Ég sakna þess að fá símhringingu frá þér og segja þér frá deginum mínum og þú segir mér frá einhverju sem þú sást í sjónvarpinu eða heyrðir í útvarpinu.

Elsku afi minn, ég hefði ekki getað beðið um betri afa til að eiga.

Ég elska þig meira en allt í heiminum.

Þín

Vala Björg.