[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sif Jakobs er gullsmiður að mennt og starfar sem hönnuður og eigandi skartgripamerkisins Sif Jakobs Jewellery.
Sif Jakobs er gullsmiður að mennt og starfar sem hönnuður og eigandi skartgripamerkisins Sif Jakobs Jewellery. Fyrirtækið hennar, sem er með höfuðstöðvar á Strikinu í Kaupmannahöfn, er í miklum uppgangi, enda eru skartgripirnir seldir í yfir 20 löndum. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Sif segir að áhugi hennar á skartgripagerð hafi komið fram hjá henni á fermingaraldri. „Það var þá sem ég kynntist skartgripabransanum.“

Hún sótti námskeið og prófaði sig áfram á þessum tíma, teiknaði mikið og dreymdi dagdrauma. „Minn draumur var að verða gullsmiður og rættist hann þegar ég útskrifaðist sem gullsmiður að loknu námi í Svíþjóð,“ segir hún og bætir við að þá hafi tekið við mörg starfsár á Ítalíu. „Það var minn allra stærsti draumur, enda er Ítalía höfuðstöðvar tísku og hönnunar í heiminum. Þannig má segja að fermingardraumurinn hafi orðið að veruleika.“

Hvað gerir fallegur skartgripur fyrir okkur?

„Fallegir skartgripir gefa gleði og má segja að þeir fullkomni útlit okkar. Það er viss tegund af tjáningu að bera fallegt skart sem í mörgum tilfellum undirstrikar persónuleika og stíl hverrar persónu. Fallegur skartgripur veitir ánægju bæði hjá þeim sem bera gripinn og þeim sem veita honum athygli.“

Í anda borgarljósa

Sif segir Novara-seríuna úr sumarlínunni 2018 með klassísku útliti en örlitlu „twisti“, sem verður vinsælt á þessu ári. „Línan er unnin út frá borgarljósum þar sem steinarnir eru misstórir og fá þannig fram þessi borgaráhrif. Einnig verður gull aðalmálið á þessu ári.“

Hvað er vinsælast fyrir fermingar hjá ykkur?

„Það sem er vinsælt núna hjá yngri stúlkum eru stílhreinir, persónulegir og nettir skartgripir. Það er líka vinsælt að vera með mörg lítil hálsmen í mismunandi síddum. Bókstafirnir og tölustafirnir hafa verið mjög vinsælir hjá okkur, þar sem upphafsstafir og fæðingar-dagar hafa orðið mikið fyrir valinu. Fyrir fermingarnar í ár er gulll að koma sterkur inn aftur þó að rauðagullið sé ennþá mjög vinsælt. Svo er silfrið alltaf klassískt og tímalaust.“

Man sína fermingu vel

Manstu eftir þinni fermingu? „Já, mjög vel, eins og hún hafi gerst í gær. Þetta var mjög stór dagur, ég og Katrín vinkona mín vorum í eins kjólum sem við fermingarstúlkurnar hönnuðum sjálfar. Ég gleymi því aldrei enda mjög sérstakir. Ég var með stóran silfurkross við kjólinn, sem var í miklu uppáhaldi hjá mér. Krossinn var erfðagripur frá ömmu minni, sem ég lét breyta hjá gullsmið svo hann passaði mér og mínum stíl. Það var fullt hús af gestum og leyndust skartgripir í mörgum af pökkunum, ég á ennþá nokkra af þeim og hafa sumir veitt mér innblástur fyrir mína hönnun.“

Sif lifir eftir sínum draumum, reynir að láta þá rætast og gerir það sem hún getur til að komast í mark.

„Annað mikilvægt í mínu lífi er að njóta lífsins og vera glöð. Sif Jakobs Jewellery er eins og mitt annað barn sem gefur mér mikla ánægju og gleði í lífinu, það eru vissulega forréttindi að vinna við það sem maður elskar.“

Höf.: Sif Jakobs