[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Það er erfitt fyrir hinn almenna borgara í Rússlandi að átta sig á því hvað kosið verður um í forsetakosningunum í landinu sem fram fara á sunnudaginn, 18. mars.

Baksvið

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Það er erfitt fyrir hinn almenna borgara í Rússlandi að átta sig á því hvað kosið verður um í forsetakosningunum í landinu sem fram fara á sunnudaginn, 18. mars. Þetta segir Jón Ólafsson, prófessor á Hugvísindasviði Háskóla Íslands og sérfræðingur í málefnum Rússlands. Fyrir liggi að Vladimír Pútín, forseti landsins, muni sitja áfram á forsetastóli og mesti óvissuþátturinn sé hversu margir muni mæta á kjörstað. „Rússland er ekki fyllilega eins og vestrænt ríki þar sem raunverulegur plúralismi eða fjölræði er í gangi og margir flokkar keppa á jafnræðisgrundvelli,“ segir Jón.

Hann segir að til að skilja það sem er að gerast í Rússlandi í dag sé nauðsynlegt að líta aftur í tímann. „Á 10. áratugnum leit út fyrir um tíma að Kommúnistaflokkurinn kæmist aftur til valda í Rússlandi. Flokkurinn hafði verið bannaður árið 1991 eftir valdaránstilraun en var þó býsna stór og voldugur. Þegar Boris Jeltsín, þáverandi forseti Rússlands, bauð sig fram til endurkjörs árið 1996, var hann mjög óvinsæll og með sáralítið fylgi framan af. Mótframbjóðandi hans var Gennadí Sjúganov fyrir Kommúnistaflokkinn. Þar sem mikill ótti ríkti við afleiðingar þess að leiðtogi kommúnista ynni sigur lögðust sterk öfl í Rússlandi og á Vesturlöndum á eitt til að koma í veg fyrir að það gerðist. Svo fór að Jeltsín var kosinn. Þegar horft er til baka sér maður þó að líklega hefði verið miklu farsælla fyrir rússneskt lýðræði að kosningarnar hefðu þróast án afskipta jafnvel þótt Jeltsín hefði tapað. Þá hefði hugsanlega getað orðið til sú menning að frambjóðendur takist á með lýðræðislegum hætti í kosningum, í stað þess að ótti ríki við eðlileg valdhafaskipti.“

Elítan tryggir eigin völd

Jón segir að þegar Jeltsín hafi látið af embætti hafi samskonar ferli hafist; kerfið hafi lagst á eitt um að finna arftaka hans og tryggja að hann sigraði. „Það var Pútín og síðan þá hefur þetta verið í sama fari; í stað þess að eðlilegt lýðræði hafi þróast hefur kerfið fyrst og fremst miðað að sjálfsvarðveislu þeirrar elítu sem þegar er búin að ná völdum.“

Jón segir að þetta hafi gengið eftir. „Til að byrja með þurfti Pútín að takast á við þingið en eftir að flokkur hans, Sameinað Rússland, náði meirihluta á þingi 2003 er það orðið að stofnun sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að styðja ákvarðanir forsetans og framfylgja stefnu hans.“

Lítið fylgi annarra

Að sögn Jóns er kjörsókn almennt fremur lítil í Rússlandi, að öllu jöfnu um 50-60% í þingkosningum. „Í síðustu forsetakosningum þar, árið 2012, var kjörsókn um 65%. Það er tvennt sem gæti dregið úr þátttökunni núna. Annars vegar áhrif Alexei Navalní, sem er líklega eini alvöru andstæðingur Pútíns, en hefur verið meinað að bjóða sig fram. Hann hefur verið með harðan áróður gegn kosningunum og hvatt fólk til að fara ekki á kjörstað. Hann nær einkum til yngra fólks, til háskólamenntaðra á þrítugs- og fertugsaldri, hann er afar áberandi á samfélagsmiðlum og ég gæti ímyndað mér að hann hafi mest áhrif á að draga úr kosningaþátttöku þessa hóps.“

Hin ástæðan, sem Jón nefnir til sögunnar, er að enginn þeirra sjö, sem bjóða sig fram gegn Pútín, hefur mælst með teljandi fylgi og hann segir það vera talsverða breytingu frá fyrri kosningum. „Þó að Pútín hafi alltaf sigrað með yfirburðum, þá hefur frambjóðandi kommúnista aldrei farið niður fyrir 13%. Gennadí Sjúganov fékk 18% atkvæða árið 2012. Frambjóðandi kommúnista sem mælist með næstmest núna er Pavel Grudinin, sem er með um 7%. Samanlagt fylgi allra mótframbjóðendanna nú er innan við 20%.“

Að mati Jóns er ekki um eiginlega kosningabaráttu að ræða í Rússlandi. Sitjandi forseti taki ekki þátt í henni að neinu leyti og komi aldrei fram sem frambjóðandi, heldur sem forseti. „Hann færði árlega ræðu sína, sem hann heldur á þinginu, nær kosningunum og í ár notaði hann tækifærið þar til að skýra frá áformum um ný vopn. Hans kosningabarátta, ef baráttu skyldi kalla, snýst í raun um að styrkja landsföðurímynd hans, þar sem hann höfðar sterkt til þjóðernis- og óöryggistilfinninga fólks. Boðskapurinn er að hann sé bjargvætturinn og það sé stórkostlegt hættuspil að gera einhvern annan en hann að forseta.“

Lítið gert úr frambjóðendum

Jón segir að a.m.k. tveir forsetaframbjóðendur hafi lýst því yfir að fyrir þeim sé kosningabaráttan leið til að koma hugmyndum og boðskap á framfæri, sem að öðrum kosti væri ekki hægt. Umfjöllun fjölmiðla um Pútín sé gríðarlega mikil frá degi til dags – alveg óháð kosningunum og lítið sé minnst á aðra frambjóðendur. Þá séu dæmi um að fjölmiðlar geri lítið úr sumum frambjóðendanna. „Gott dæmi um það er Ksenia Sobchak sem er afar áhugaverður stjórnmálamaður, Hún er fjölmiðlakona með margra ára starfsreynslu og hefur m.a. stjórnað vinsælum frétta- og viðtalsþáttum En hún er iðulega kynnt til sögunnar sem glamúrgella sem geri fátt annað en að stunda samkvæmi. Einnig er látið að því liggja að hún bjóði sig fram vegna þess að Pútín hafi beðið hana um það – í von um að það hafi góð áhrif á kjörsókn. Það getur varla verið, því hún er á allt öðru pólitísku sviði en hann og hefur gagnrýnt hann mikið. Þetta er manneskja sem berst fyrir mjög skýrum málstað og hefur haldið uppi beittri gagnrýni á stjórnvöld, en það er stanslaust talað niðrandi um framboð hennar – sem ber því miður fyrst og fremst kvenfyrirlitningu vitni, að mínu mati.“

En er þetta ekki nokkur einföldun, að útskýra yfirburðastöðu Pútíns með þessum hætti? Jón svarar því til að hún skýrist ekki af áhrifum fjölmiðla einum og sér, en það sé hluti skýringarinnar.

Arftakinn ekki í augsýn

Hann segir margt benda til þess að almenningur og stjórnvöld í Rússlandi séu farin að huga að því sem taki við þegar Pútín fari frá völdum. „Maðurinn getur auðvitað ekki setið endalaust á valdastóli, en það er nú þegar talað um að hann hafi hug á að bjóða sig aftur fram árið 2024. Til þess þarf að vísu stjórnarskrárbreytingu auk þess sem hann verður þá orðinn 72 ára og margir búast við því að elítan, sem er við völd núna, gliðni og fari að riðlast. En það er ólíklegt að einhver þeirra, sem nú er í forsetaframboði, taki við völdum eftir Pútín.“