Vigdís Eiríka Helgadóttir fæddist 21. ágúst 1954. Hún lést 16. febrúar 2018.

Útför Vigdísar fór fram 23. febrúar 2018.

Nú kveð ég Dísu systur mína, en hún var yngst af okkur sex systkinum. Það má segja að hún hafi verið samnefnari okkar, því hvar sem við komum saman var hún duglegust við að rifja upp hinar ýmsu minningar úr lífshlaupinu og segja skemmtilega frá. Og alltaf var hún duglegust við að halda utan um fjölskylduna.

Dísa var fædd 1954 í Meðalheimi á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu. Árið 1958 flutti fjölskyldan suður í Garðabæ og bjó þar til ársins 1964 en þá var aftur flutt norður, en þá að Þórormstungu í Vatnsdal og foreldrar okkar bjuggu þar í tólf ár. Mamma vildi að Dísa færi í Kvennaskólann á Blönduósi þar sem hún hafði verið á sínum yngri árum. En Dísa vildi fara í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði og fór þangað. Eftir það kom hún bara sem gestur að Þórormstungu, því samhliða náminu á Laugalandi hljóp hún uppi bóndason á Landrover-jeppa, já þannig náði hún í hann Bróa sinn. Þau bjuggu fyrstu árin á Akureyri en byggðu sér síðan íbúðarhús á Þórustöðum 7 í Eyjafjarðarsveit á æskuheimili Bróa og fóru í félagsbúskap í kartöflurækt með foreldrum Bróa og störfuðu við það alla tíð samhliða annarri vinnu. Við Dísa höfðum stundum rætt um að gaman væri að fara í jeppaferð yfir hálendið, sumarið 2011 létum við verða af því, komum saman og gistum í sumarbústað í Borgarfirði ásamt fjölskyldum okkar. Daginn eftir fórum við í blíðskaparveðri upp hjá Kalmannstungu og inn á Arnarvatnsheiði, Víðidalstunguheiði, Grímstunguheiði og niður í Vatnsdal. Við fengum fallega fjalla- og jöklasýn í þessari ferð. Ég hafði farið þessa leið frá Grímstungu í Vatnsdal og suður í Húsafell nokkrum árum áður ásamt Eggerti móðurbróður okkar og var því nokkuð kunnugur á þessum slóðum. Á leiðinni yfir Stórasand, þar sem við vorum að laga veginn með skóflu, já vegurinn var mjög stórgrýttur, sá ég að Dísa horfði á vegleysuna og nýju „sjöuna“ sína (Land Cruiser-inn); já henni þótti vegurinn ekki hæfa nýja bílnum, hún sá malbikið í hillingum. En þegar við ókum niður með Álkuskálarárgili og horfðum yfir Vatnsdalinn, æskuslóðir okkar og forfeðranna, voru allir komnir með ferðabrosið á ný. Við fórum síðan í sumarbústaðinn Áslund, þar sem við grilluðum okkur kvöldverð og ekki leiddist Dísu að skála fyrir Bróa sínum meðan hann grillaði fyrir hana lærissneiðarnar.

Dísa rifjaði upp margar sögur frá því hún var í Þórormstungu, og einnig frá gamla skólanum sínum á móhellunni, sem nú er búið að breyta í sumarhús en þessir staðir sjást mjög vel frá Áslundi. Á meðan við vorum að borða „skála“ lýstist himinninn allt í einu upp og það myndaðist tvöfaldur regnbogi með Vatnsdalsfjall í baksýn, já veðurguðinn tók á móti okkur með þessari fallegu sýn að lita himininn með þessum litríku ljósbogum.

Dísa skildi sjöuna sína eftir hjá Bróa en ég held að hún svífi nú um himingeiminn á rauðri Teslu.

En nú geymi ég Dísu í skemmtilegum minningum frá liðnum tíma.

Bróa, Maggý, Ögga, Jóni Helga og fjölskyldum þeirra votta ég mína dýpstu samúð.

Lárus Helgason.

Blómaræktandinn, garðáhugakonan, kartöfluræktandinn, stríðnispúkinn. Konan sem var svo stór í hugsun, Dísa á Þórustöðum, hefur sofnað inn í ljósið.

Mér er þungt um hjartarætur núna, þegar skrifa þarf um bestu og einu vinkonu mína, hana Dísu. Okkar samfylgd varaði í 40 ár, við áttum börnin okkar á svipuðum tíma og var hún alltaf rauði þráðurinn í lífi mínu og minna barna.

Alltaf svo fín og mikil reisn yfir henni. Lífsgleðin í fyrirrúmi. Allt blómstraði í höndunum á henni og garðurinn hennar er eins og danskur herragarður og er mikinn kærleik þar að finna. Hún var aldrei aðgerðalaus og stóð að búrekstrinum ásamt manni sínum með miklum myndarbrag. Stutt er síðan hún lauk við að prjóna afar fallegan skírnarkjól á nýjasta afkomandann.

Fjölskyldan hennar var henni ævinlega efst í huga og ber heimili hennar þess skýrt merki.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Bestasta mín, það er með miklum trega sem ég kveð þig en ég þakka af öllu hjarta samfylgdina öll þessi ár og ég veit, að við munum drekka saman sérríið sem við ætluðum að njóta saman á elliheimilinu, orðnar gamlar konur.

Elsku Helgi, Margrét, Örlygur, Jón Helgi og fjölskyldur, minningin um dásamlegu Vigdísi mun lifa um ókomin ár í hjörtum okkar allra.

Vinkona að eilífu.

Valgerður S. Skjaldardóttir.