Guðný Aradóttir fæddist 10. apríl 1919. Hún lést 9. febrúar 2018.

Útför Guðnýjar fór fram 23. febrúar 2018.

Fyrstu minningar mínar um ömmu Guðnýju eru frá fjölskyldustundum í Skógarlundinum hjá henni og afa. Skemmtikvöld á sjónvarpslausum fimmtudagskvöldum, laufabrauðsskurður, dansað í kringum jólatréð og pylsupartí í garðinum. Malt og appelsín í gleri opnað með grænum upptakara. Þá fannst mér amma þegar orðin gömul kona sem hún var auðvitað ekki. Núna tæpum fjörutíu árum síðar kveð ég ömmu sem gaf nebbakossa og var alltaf svo fín. Mér fannst hún í raun eilíf og það er ómetanlegt að vera rúmlega fertug og hafa fengið að eiga ömmu og afa að svona lengi. Ég er þakklát fyrir að hafa getað komið með syni mína í heimsókn til þeirra; þar sem alltaf var til ís og dáðst var að afrekum strákanna, stórum sem smáum. Það væri langt mál að telja upp allar minningarnar sem koma upp í hugann en ég geymi þær vel og kveð með söknuði.

Guðný Camilla Aradóttir.