Ásta Hlíf Ágústsdóttir fæddist 11. febrúar 1945 í Ölvisholtshjáleigu í Holtum, Rangárvallarsýslu. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 7. mars 2018.

Foreldrar hennar eru Jóhanna Sigrún Árnadóttir, f. 1923, og Ágúst Ingi Guðmundsson frá Vestmannaeyjum, f. 1922, d. 1976.

Systkini Ástu eru: Brynja Ágústsdóttir, f. 1944, eiginmaður Eggert Simonsen, lést 2009, þau eiga fjögur börn, Gestur Ragnar Bárðarson, f. 1953, kvæntur Ernu Steinu Guðmundsdóttur, þau eiga fjögur börn, og Kristinn Marinó Bárðarson, f. 1957, kvæntur Gerðu Arnadóttur og eiga þau tvær dætur.

Ásta flutti að Torfastöðum í Fljótshlíð á öðru ári og 1953 á Selfoss.

Ásta flutti á Sólheima 1960, þá 15 ára gömul, þar sem hún bjó og starfaði alla tíð síðan.

Ásta var listræn og teiknaði og málaði bæði með olíu og vatnslitum. Hún prjónaði og óf teppi og dúka í vefstofunni.

Ásta Hlíf hafði glímt við veikindi í nokkur ár sem að lokum drógu hana til dauða.

Útför hennar fer fram frá Sólheimakirkju í dag, 16. mars 2018, klukkan 15.

Ó, faðir, gjör mig blómstur blítt,

sem brosir öllum mót

og kvíðalaust við kalt og hlýtt

er kyrrt á sinni rót.

(Matthías Jochumsson)

Ásta Hlíf Ágústsdóttir var þetta blíða blóm sem átti svo fallegt bros sem hún var dugleg að gefa. Þegar hún brosti þá ljómaði allt andlitið hennar og augun sendu frá sér geisla kærleikans.

Ásta kom á Sólheima árið 1960, þá 15 ára gömul. Hún var ein af börnunum hennar Sesselju Hreindísar, stofnanda Sólheima. Ásta Hlíf var listræn og vinnusöm. Hún málaði, teiknaði, óf teppi og dúka og prjónaði. Í listasmiðjunni á Sólheimum stóð hún við málaratrönurnar og málaði falleg verk. Hún beitti ákveðnum aðferðum við listsköpun sína sem hún hafði lært á Sólheimum. Hún málaði ljósan grunnlit sem hún vann síðan eftir ákveðnum aðferðum.

Hún var iðin við vefnaðinn í vefstofunni þar sem hún óf myndir, dúka og teppi.

Ásta naut þess að hlusta á góða tónlist sem leikin var á píanóið í salnum á Sólheimum eða af hljómdiskum. Elvis Presley var í sérstöku uppáhaldi hjá henni.

Ástu er sárt sakað af heimilisfólki og starfsmönnum Sólheima. Hún skilur eftir sig mynd kærleikans og fallegt bros sem mun lifa á meðal okkar.

Ég blessa nafn þitt blítt í sál mér geymi,

og bæn til Guðs mín hjartans kveðja er.

Hann leiði þig í ljóssins friðarheimi,

svo lífið eilíft brosi móti þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Fyrir hönd íbúa og starfsmanna á Sólheimum,

Sveinn Alfreðsson.

Ég leit eina lilju í holti,

hún lifði hjá steinum á mel.

Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk

– en blettinn sinn prýddi hún vel.

(Þorsteinn Gíslason)

Ásta Hlíf Ágústsdóttir, frænka okkar, hefur nú kvatt þessa jarðvist. Þegar fréttin um lát hennar barst komu þessar línur upp í hugann.

Ásta Hlíf bjó á Sólheimum í Grímsnesi frá unglingsárum. Þar var vel um hana hugsað, hún stundaði vinnu og eignaðist þar vini. Sólheimar voru hennar heimili.

Við systurnar og Ásta og Brynja, systir hennar, ólumst upp saman austur í Fljótshlíð. Við bjuggum í sama húsi og vorum systradætur. Við minnumst því æskuslóðanna, leikja og viðburða bernskunnar þegar við hugsum um hana frænku okkar.

Ásta Hlíf var hæglát stúlka og sagði ekki margt. Hún var bæði „blíð og björt“ eins og segir í kvæðinu. Hún var mjög söngelsk og lærði fljótt alla texta. Sem ungbarn fékk hún heilahimnubólgu og gekk ekki heil til skógar eftir það.

Það var sexbýli heima á torfunni og þar bjó stór hópur barna, ekki síst á sumrin þegar sumardvalarbörnin komu. Einnig bættust í hópinn frændsystkini okkar úr Vestmannaeyjum. Öll vorum við á svipuðum aldri og lékum okkur saman þegar tími gafst til. Við tókum einnig þátt í bústörfunum eins og aldur leyfði, við vorum ekki gömul þegar við gátum farið að reka og sækja kýrnar í haga svo dæmi sé tekið.

Ásta Hlíf var með okkur og tók þátt í leikjum okkar. Eitt haustið lékum við okkur uppi á túni. Það hafði fryst og hún hrasaði og datt. Þegar heim var komið kom í ljós að hún var handleggsbrotin svo á ýmsu gekk.

Það var afar kært á milli Ástu og ömmu okkar Marsibil. Þær komu oft austur í Fljótshlíð eftir að fjölskyldan var flutt á Selfoss. Erfitt hefur það verið fyrir hana og hennar nánustu þegar hún var send á Sólheima. En hún hefur góðu heilli átt þar góða ævi.

Elsku Rúna, Bárður, Brynja, Kiddi og Gerða, Gestur og Erna Steina og fjölskyldur. Hugur okkar og samúð er hjá ykkur. Við trúum því að nú leiðist þær um Sumarlandið litla amma Marsibil og Ásta Hlíf. Blessuð sé minning hennar.

Erna Marsibil og

Sigurlín Sveinbjarnardóttir.