Miklir umbrotatímar hafa átt sér stað hjá stærstu verkalýðshreyfingum landsins. Fyrir réttu ári var Ragnar Þór Ingólfsson kjörinn formaður VR. Hann hlaut yfirburðakosningu eða tæp 63% atkvæða.

Miklir umbrotatímar hafa átt sér stað hjá stærstu verkalýðshreyfingum landsins. Fyrir réttu ári var Ragnar Þór Ingólfsson kjörinn formaður VR. Hann hlaut yfirburðakosningu eða tæp 63% atkvæða.

Nú réttu ári síðar var í fyrsta skipti í tuttugu ára sögu verkalýðsfélagsins Eflingar kosið um formann í félaginu. Hingað til hefur verið sjálfkjörið í stjórn félagsins þar sem aldrei áður hefur komið fram mótframboð.

Þann 29. janúar sl. tilkynnti ung baráttukona, Sólveig Anna Jónsdóttir, framboð sitt til formanns stéttarfélagsins Eflingar gegn frambjóðanda uppstillingarnefndar, Ingvari Vigri Halldórssyni.

Fráfarandi formaður, Sigurður Bessason, bauð sig ekki fram til endurkjörs eftir að hafa gegnt þar formennsku í um tvo áratugi.

Fyrir rúmri viku vann Sólveig Anna Jónsdóttir og framboð hennar B-listinn síðan stórsigur á frambjóðanda uppstillingarnefndarinnar og A-lista hans. Framboð Sólveigar hlaut 80% greiddra atkvæða.

Það er ljóst að mikið er að gerast í stærstu verkalýðshreyfingum landsins. Það virðist sem ákveðin kynslóðaskipti séu að fara fram innan þeirra Yngra fólkið er að stíga sterkt inn og ætlar ekki að taka því þegjandi hvernig traðkað hefur verið á réttindum þess.

Láglaunastefnan sem hefur verið rekin í skjóli ASÍ fram að þessu er að öllum líkindum að syngja sitt síðasta. Hér er þó ekki einungis um að ræða óánægju vegna lágra launa, heldur má leiða að því líkur að orsaka óánægjunnar sé ekki síst að leita í ótrúlegri framgöngu Kjararáðs. Ráðið sem hefur gengið á undan með fordæmalausum launahækkunum til æðstu embættismanna og alþingismanna. Fordæmi, þar sem örfáir taka til sín meira en aðrir geta látið sig dreyma um. Þeir hinir sömu og eru nógu góðir til að borga brúsann. Sama gamla sagan sem níðist á alþýðunni og þeim sem lökust hafa kjörin. Verkafólkinu sem ber efsta lagið á herðum sér og skapar þeim allan auðinn.

Það liggur á borðinu að ríkisstjórnin verður að bregðast strax við. Hún verður að leita allra leiða til að bæta bága stöðu almennings. Allt annað er ávísun á harðari verkalýðsbaráttu og hugsanlega upplausn á vinnumarkaðnum með verkföllum og öllu tilheyrandi. Þá verður ekkert í boði annað en harkan sex. Fólkið í landinu sem þrælar myrkranna á milli biður um réttlæti. Það biður um fæði, klæði og húsnæði fyrir sig og börnin sín.

Þær litlu kjarabætur sem fást, hverfa strax í gin verðtryggingar og hækkandi húsaleigu. Skuldir heimilanna í landinu hækka um tugi milljarða á ári vegna húsnæðisliðar sem haldið er inni í neysluverðsvísitölu.

Það er kominn tími til að stjórnvöld hugsi um alla þegna samfélagsins en ekki einungis suma.

Fólkið okkar kallar eftir réttlæti.

Boltinn er hjá ykkur, ágæta ríkisstjórn.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.

Höf.: Inga Sæland