[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Anna Sigurðardóttir og Timo Salsola stofnuðu fyrirtæki sitt, Sigga & Timo, árið 1993.
Sigríður Anna Sigurðardóttir og Timo Salsola stofnuðu fyrirtæki sitt, Sigga & Timo, árið 1993. Þau hafa handsmíðað fallega skartgripi í Hafnarfirðinum síðan og í sameiningu leitt áfram eitt fallegasta fyrirtæki landsins í þessu skemmtilega bæjarfélagi. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Sigríður eða Sigga eins og hún er vanalega kölluð segir að fyrir fermingar sé algengt að fólk fjárfesti í skartgripum fyrir fermingarbarnið. „Ég gaf báðum sonum mínum gullkross á fermingardaginn þeirra. Gjöfina fengu þeir um morguninn. Við merktum krossana með nöfnum þeirra og sköpuðum þannig hefð í fjölskyldunni sem vonandi fylgir fólkinu mínu áfram um ókomna tíð.“

Sigga segir algengt að heilu kynslóðirnar versli hjá henni. „Í fyrstu var það kannski amman sem kom og keypti lítinn demantshring fyrir dótturina, sem síðan óx úr grasi og eignaðist sjálf dóttur og er nú að koma og kaupa lítinn samskonar demantshring fyrir dóttur sína. Þetta finnst mér dýrmætt; að sjá hvernig heilu kynslóðirnar koma saman að velja. Þetta er það sem gefur starfinu gildi. Þessar skemmtilegu fjölskyldusögur sem maður fær að taka þátt í að skapa.“

Hvað er vinsælast um þessar mundir fyrir fermingarbörnin?

„Allir skartgripir í dag eru frekar nettir; grönn silfurarmbönd eru vinsæl, sem og hjörtu sem hægt er að letra fallegan texta á. Einnig eru krossar alltaf vinsælir fyrir fermingar, hringir og armbönd.“

Sigga segir skartgripi mjög persónulega og kærleiksríka gjöf, þar sem sá sem fær skartið hugsar um gefandann þegar hann heldur út í lífið með klassískan hlut sem vex með einstaklingnum.

Skartgripir tákna ýmislegt að mati fólks, meðal annars gæði og verðmæti, en svo geta efnin sem við notum í skartið einnig haft margvíslegar tilvísanir. „Perlan táknar í mínum huga hreinleika og demantur, sem er fágætur gæðasteinn, táknar gæði og verðmæti.“

Sigga talar um að litlir perlukrossar séu vinsælir og þá í armböndum og fleiru þvíumlíku. „Mér finnst feðurnir duglegir að kaupa perlur. Ég veit ekki hvað það er en mér finnst það áhugavert.“

Aðspurð hvað hún hafi fengið sjálf af skartgripum þegar hún fermdist segir hún: „Ég fékk fallegan silfurhring frá Gunnu Ástu frænku sem ég bar lengi. Ég var mikil strákastelpa og því kannski ekki svo auðvelt að velja á mig skartgripi. En þessi hringur var einstaklega fallegur og minnti mig á frænku mína þegar ég bar hann.“

Fiðrildi tákn um breytingar

Fiðrildaskartið er einnig vinsælt fyrir fermingarnar. „Ætli það sé ekki vegna þess að skartgripir sem minna á fiðrildi tákna vanalega staðinn þegar við tökumst á flug; erum að breytast, vaxa og fljúga hærra. Við eigum alls konar skart sem minnir á fiðrildið; allt frá hring upp í hálsmen.“

Sigga tekur undir með blaðamanni að strákar í dag séu mjög hrifnir af skartgripum. Þeir eru hrifnir af hálsmenum, sumir vilja eyrnalokka, armbönd og fleira. „Ég bíð spennt eftir að verða amma sjálf. Held það sé einstök tilfinning. Enda er gleðin og ánægjan yfir fjölskyldunni það sem lífið gengur út á að mínu mati. Þá fæ ég án efa tækifæri til að velja fallegt skart á ömmubörnin, eins og allar fallegu ömmurnar eru að gera hjá mér daglega,“ segir Sigga að lokum.

Höf.: Sigríður Anna Sigurðardóttir