Með forsetanum Steven Mnuchin fjármálaráðherra með Trump.
Með forsetanum Steven Mnuchin fjármálaráðherra með Trump. — AFP
Stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur gripið til refsiaðgerða gegn nítján Rússum og fimm stofnunum vegna meintra afskipta þeirra af kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember 2016 og tölvuárása.

Stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur gripið til refsiaðgerða gegn nítján Rússum og fimm stofnunum vegna meintra afskipta þeirra af kosningunum í Bandaríkjunum í nóvember 2016 og tölvuárása. Á meðal mannanna eru þrettán Rússar sem sérstakur saksóknari dómsmálaráðuneytisins, Robert Mueller, ákærði í síðasta mánuði fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á úrslit kosninganna.

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sakaði einnig Rússa um „skaðlegar tölvuárásir“ og fleiri aðgerðir sem hefðu beinst gegn „þýðingarmiklum innviðum“.

Refsiaðgerðirnar beinast gegn fimm stofnunum, þeirra á meðal rússnesku öryggislögreglunni FSB, leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, og netrannsóknastofnun sem er með höfuðstöðvar í Pétursborg og er sökuð um að hafa skipulagt dreifingu falsfrétta á netinu í því skyni að hafa áhrif á kosningarnar í Bandaríkjunum. Refsiaðgerðirnar beinast meðal annars gegn þrettán starfsmönnum stofnunarinnar, þeirra á meðal Jevgení Prígozhín, olígarka sem er sagður hafa stjórnað stofnuninni og hefur verið í nánum tengslum við Vladimír Pútín, forseta Rússlands.

Undirbúa gagnráðstafanir

Refsiaðgerðirnar fela í sér að bandarísk yfirvöld geta fryst eignir þeirra manna og stofnana sem þær beinast gegn. Mnuchin sagði að Bandaríkjastjórn hygðist grípa til fleiri refsiaðgerða vegna málsins síðar.

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, Sergej Rjabkov, sagði að stjórn landsins væri að undirbúa ráðstafanir til að svara refsiaðgerðunum.