Jónas Snæbjörnsson
Jónas Snæbjörnsson
Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, segir framhaldið í vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu munu skýrast þegar samgönguáætlun verður kynnt í haust. „Þetta er undirbúningur að því hvernig staðið verður að borgarlínu.

Jónas Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, segir framhaldið í vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu munu skýrast þegar samgönguáætlun verður kynnt í haust.

„Þetta er undirbúningur að því hvernig staðið verður að borgarlínu. Það er verið að bera saman kosti svo menn hafi heildarsýn á hvernig vegagerð verður næstu 20-30 ár, með eða án borgarlínu. Hún er komin inn á svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins en er enn til umræðu vegna vinnu við aðalskipulag sveitarfélaganna. Samstarfshópur SSH og samgönguráðuneytið vinna að því. Vegagerðin fylgir þar með ráðuneytinu. Það er ekki komið að því að ákveða fjárveitingar.“

Samkvæmt tillögum samráðshópsins, sem fjallað er um í grein hér fyrir ofan, er gert ráð fyrir átta framkvæmdum við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu til 2030. Við það bætast minni framkvæmdir við stofnvegi og gerð samgöngustíga og forgangsakreina.

Jónas segir aðspurður gert ráð fyrir mislægum gatnamótum á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar og á Sæbraut við nýja Vogabyggð.

Á við nokkur mislæg gatnamót

Þá segir Jónas að með því að leggja Miklubraut í stokk séu gerð mislæg gatnamót við Miklubraut/Kringlumýrarbraut og Miklubraut/Lönguhlíð. Þá muni stokkur á Hafnarfjarðarvegi fela í sér mislæg gatnamót við Hafnarfjarðarveg/Vífilsstaðaveg og Hafnarfjarðarveg/Lyngás.

Samkvæmt tillögunum er áætlað að framkvæmdir við Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð kosti frá 6,5 milljörðum. Þær fela líka í sér gerð mislægra gatnamóta.

Til upprifjunar gerðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin með sér samkomulag árið 2012 um að draga úr uppbyggingu samgöngumannvirkja en efla í staðinn almenningssamgöngur.

Með nýrri samgönguáætlun tekur við nýtt framkvæmdaskeið.