[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði nú í vikunni að eignarréttur Mentis, félags í eigu Gísla K.

Baksvið Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði nú í vikunni að eignarréttur Mentis, félags í eigu Gísla K. Heimissonar, að 7,2% hlut í Reiknistofu bankanna (RB) sem félagið keypti af Kviku banka í apríl árið 2016, væri viðurkenndur.

Tekist hefur verið á um þennan hlut frá því kaupin voru gerð, eins og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu, en fljótlega eftir kaupin lýsti Sparisjóður Höfðhverfinga því yfir að hann hygðist neyta forkaupsréttar samkvæmt ákvæði í samþykktum RB.

Gísli K. Heimisson var áður framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku en hluturinn sem Mentis keypti var í eigu Kviku og nokkurra annarra smærri hluthafa í RB.

Forsaga málsins er sú að Sparisjóður Höfðhverfinga taldi sig hafa nýtt forkaupsrétt sinn að hlutunum rúmum hálftíma áður en frestur til að nýta réttinn rann út.

Mentís hefur þegar greitt fyrir hlutina, 70 milljónir króna, eins og fram kemur í dómi Héraðsdóms, en RB hefur ekki skráð Mentís sem eiganda hlutanna í hlutaskrá vegna ágreiningsins. Mentís höfðaði því mál til viðurkenningar á því að félagið njóti eignaréttar á hinu keypta hlutafé í samræmi við ákvæði kaupsamningsins 7. apríl 2016, eins og það er orðað í dómnum.

Frestur fór að líða 11. apríl

Mentís vísar til þess að Sparisjóðurinn hafi ekki neytt forkaupsréttar innan 30 daga tímafrests samkvæmt samþykktum félagsins, en Mentís telur að fresturinn hafi verið liðinn 11. maí 2016 kl. 17.56. Í dómnum segir að engin haldbær rök séu til þess að miða upphaf 30 daga tímafrests við næsta dag á eftir, 12. apríl 2016. Frestur Sparisjóðsins til að nýta sér forkaupsrétt sinn hafi byrjað að líða 11. apríl 2016. „Af þessari ástæðu gat tilkynning stefnda um nýtingu forkaupsréttar ekki haft þau áhrif að skapa honum eignarétt að téðum hlutum,“ segir orðrétt í dómnum.

Ætlar sér ekki hlutinn

Í samtali við Morgunblaðið í maí 2016 staðfesti Jóhann Ingólfsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, sem á í dag 0,09% hlut í RB, að ekki stæði til að sjóðurinn eignaðist hlutinn, heldur hefði verið gert samkomulag við utanaðkomandi aðila um kaup hans í beinu framhaldi. Ekki hefur verið upplýst hver sá aðili sé, en Síminn staðfesti á sínum tíma áhuga á samstarfi við RB, hvort sem fyrirtækið yrði hluthafi eða samstarfsaðili.

Eins og fram hefur komið hefur RB verið í eigu fjármálafyrirtækja fram til þessa. Má það rekja til sögulegra ástæðna þar sem í upphafi þótti verulegt hagræði því fylgjandi að kjarnakerfi væru byggð upp og rekin sameiginlega. Stærstu hluthafar í RB eru Landsbankinn með 38,57% hlut, Íslandsbanki með 30,06% hlut og Arion banki með 20,02% hlut.

Í ljósi sáttar hluthafa RB við Samkeppniseftirlitið frá 2012 skuldbundu bankarnir sig til að minnka hlut sinn, eins og fjallað hefur verið um áður í Morgunblaðinu. Í því samhengi hafa allir þrír bankarnir sagst vera með hlutabréf í RB til sölu, annaðhvort öll sín bréf, eða hluta þeirra.

4,7 milljarða tekjur

Í ársreikningi RB kemur fram að hagnaður af rekstri félagsins árið 2016 hafi verið 104 milljónir króna. Rekstrartekjur námu 4,7 milljörðum króna, hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta var 549 milljónir króna. Eignir RB voru í árslok tæpir 4,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall var 37,6%. Handbært fé frá rekstri nam 545,5 milljónum króna samkvæmt sjóðstreymi. Meðalfjöldi stöðugilda á árinu var 180.
Upplýsingatækni
» Verðmæti RB í heild sinni miðað við að kaupverð 7,2% hlutar sé 70 milljónir króna, er 972 milljónir króna.
» Reiknistofa bankanna er að stærstum hluta í eigu stóru bankanna þriggja.
» Hlutir bankanna í RB eru til sölu, að hluta eða öllu leyti
» Sparisjóður Höfðhverfinga hafði ekki í hyggju að eiga hlutinn til frambúðar.