Björn Berg hefur mikinn áhuga á að auka áhuga almennings á fjármálum.
Björn Berg hefur mikinn áhuga á að auka áhuga almennings á fjármálum. — Ljósmynd/Íslandsbanki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Berg Gunnarsson er fræðslustjóri Íslandsbanka.
Björn Berg Gunnarsson er fræðslustjóri Íslandsbanka. Flest sem viðkemur fjármálum virðist vekja áhuga hans en á fjölmiðlatorgi Íslandsbanka má finna fjölmargar skemmtilegar greinar eftir hann þar sem spáð er í hagnað í kvikmyndageiranum, íþróttum og fleira. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Ég hef haft áhuga á fjármálum frá því ég var ungur, á meðan ég fylgdist með íþróttaleikjum var ég að reyna að finna út hvernig fótboltaliðin voru rekin, af hverju ákveðnir leikmenn voru keyptir fyrir vissar upphæðir og þar fram eftir götunum. Fjármálin heilla mig mikið, sérstaklega að setja þau upp á léttan og skemmtilegan hátt og tengja við eitthvað sem fólk þekkir,“ segir Björn Berg sem er menntaður viðskiptafræðingur.

Þessi áhugi Björns Berg hefur vakið athygli víða og rata greinar hans reglulega á ljósvakamiðla fjölmiðlanna. Eftirminnileg er grein sem hann skrifaði fyrir síðustu jól þar sem hann ræddi kvikmyndina Christmas Vacation og tengdi hana síðan við kostnað þess að skreyta húsin okkar með ljósum þar sem hann vakti athygli á möguleikum til sparnaðar í þessu verki.

Efni til að kveikja áhuga almennings

Sem fræðslustjóri Íslandsbanka leitast Björn Berg við að vekja áhuga almennings á fjármálum. „Mér hefur þótt vanta efni sem sýnir almenningi hvað fjármál eru í raun áhugaverð. En þegar þessi áhugi er kveiktur hjá fólki, þá er svo miklu líklegra að það vilji fræðast um fjármál, sem er auðvitað öllum fyrir bestu. En þá fræðslu þarf líka að setja fram með skemmtilegum og áhugaverðum hætti, hvort sem verið er að ræða praktísk mál varðandi kaup á húsnæði, sparnað, fjárfestingar, rekstur eða annað.“

Björn Berg segir okkur mannfólkið ansi ólíkt og fjármálalegt uppeldi okkar misjafnt. „Auðvitað göngum við öll í gegnum þessi tímamót, þegar við verðum fjárráða, komum okkur þaki yfir höfuðið eða byrjum að standa fjárhagslega á eigin fótum. Við lærum flest talsvert við þau tímamót. En það græða allir á enn meiri þekkingu og á því að vera betur undirbúnir þegar kemur að því að taka mikilvægar fjárhagslegar ákvarðanir.“

Að koma sér upp reglu

Þegar kemur að því að unglingar eignast pening, til dæmis á fermingaraldri, segir Björn Berg mjög áhugavert að kynna fyrir börnum þá hugmynd að geyma hluta af peningunum til framtíðar. „Það er ansi freistandi að eyða peningunum strax. En eftir því sem peningurinn er ávaxtaður lengur, því meira verður úr honum. Börn á fermingaraldri gætu látið peningagjafirnar vaxa og átt dýrmæta útborgun í íbúð í framtíðinni og það væri ekki vitlaust af foreldrum að vekja athygli á því.“ Björn talar um þennan bardaga innra með okkur, þegar við erum með pening og það freistar að eyða honum öllum strax. „En ef þú kennir barninu þínu að með því að sleppa einhverju núna geti það fengið eitthvað miklu skemmtilegra síðar, t.d. að sleppa því að fara reglulega í sjálfsala og geta í staðinn farið til útlanda, þá er ansi áhugavert spjall hafið á heimilinu.“

Að mati Björns Berg ná flestir þeir árangri í að spara sem eru með sjálfkrafa sparnað á reikningum sínum. Þeir halda sparnaðinn betur út og bera ekki sjálfir ábyrgð á að meta um hver mánaðamót hvort þeir hafi raunverulega efni á sparnaðnum. „Það er auðvitað miklu betra að eiga smá varasjóð ef eitthvað kemur upp á en að grípa til yfirdráttarskuldar eða einhvers enn verra, en það reynist mörgum erfitt.“

Við búum til peninga til að njóta

Jafnframt finnst honum gaman að velta upp þeirri spurningu: Hvers vegna erum við að þéna peninga? „Til að njóta þeirra. Ég held að markmið fæstra sé að synda um í peningatanki Jóakims Aðalandar, við viljum verja fjármagni okkar í það sem er okkur nauðsynlegt, húsnæði, menntun okkar og barna okkar en líka það sem veitir okkur ánægju og getur tryggt okkur fyrir áföllum. Í sparnaði hentar oft að hafa skýr markmið og vera að safna fyrir einhverju tilteknu sem okkur langar í, þá verður sparnaðurinn líka skemmtilegri.“

Íslandsbanki býður upp á áhugaverð námskeið fyrir ungt fólk. „Við erum með námskeið um sparnað, sem dæmi vorum við með mjög áhugaverðan fund í tengslum við Meistara-mánuð um hvernig fólk getur sparað eins og meistarar. Nú erum við að undirbúa nýjan fund fyrir yngri hóp fólks, þar sem við ætlum að fara yfir á áhugaverðan hátt grundvallarreglur þegar kemur að sparnaði og ræða á mjög einfaldan hátt um hvað raunverulega virkar. Hægt verður að fylgjast með því á heimasíðu okkar.“

Sagan um frændann

Þekkir þú gott sparnaðar ráð? „Já ég man eitt skemmtilegt dæmi, um aðila sem freistaðist oft til að eyða peningunum sínum og gekk illa að spara. Hann tók til þess ráðs að biðja frænda sinn að geyma sparnaðinn og gerði við hann samning um hversu lengi. Hann bar mikla virðingu fyrir þessum frænda sínum, var hálfhræddur við hann, og vildi alls ekki bregðast því sem hann hafði sett upp fyrir honum. Þetta gekk eins og í sögu!“

Ertu góður í að spara sjálfur? „Já, ég myndi segja að það hafi gengið ágætlega. Alveg frá því ég man eftir mér var pabbi duglegur að kenna mér að fara vel með peninga, hann kenndi mér gildi peninga, að þeir væru takmarkaðir og að það borgaði sig að forðast lán eins og heitan eldinn. Ég man sérstaklega eftir því að hafa ferðast mikið sem krakki, þá til systkina minna erlendis. Í þeim ferðalögum fékk ég ávallt vasapening, sem ég sparaði án þess að láta nokkurn vita. Fyrir aurana keypti ég mér síðan bílskrjóð þegar ég varð 17 ára,“ segir hann og bætir við: „Mér hefur alltaf þótt góð tilfinning að spara og eiga fyrir hlutunum. En fyrir fjárhagslegt öryggi hefur maður stundum þurft að fórna einhverju á móti. En það þarf ekki að vera leiðinlegt ef markmiðið er spennandi.“

Íslendingar á réttri leið

Þegar kemur að umræðunni um neysluskuldir og hvernig sé best að koma sér út úr slíku segir hann: „Mér finnst neysluskuldir áhugaverð áskorun, þar sem fólk er flækt í það mynstur að vera einum eða tveimur mánuðum á eftir með fjármálin sín. Í staðinn fyrir að eiga varasjóð, eru hlutirnir keyptir með yfirdrætti eða korti. Það er rándýrt að vera í þeirri stöðu. Staðan er þó allt önnur og betri á Íslandi en fyrir hrun. Kaupmáttur hefur undanfarin ár aukist hraðar en einkaneysla, þó aðvið höfum séð eilítinn viðsnúning að undanförnu, sem vonandi er bara tímabundinn. Þetta þýðir að við höfum verið að greiða niður lán og leggja meira fyrir. Það eru frábærar fréttir.“

Ef Björn Berg ætti að gefa nokkur einföld ráð myndi hann ráðleggja fólki að skrifa fjármálin sín niður, og þannig átta sig betur á því hvað það á, hvað það skuldar og í hvað það er að eyða. „Ef við reynum að minnka neysluna í einhvern tíma, getum við kannski losnað út úr mynstrinu. Bara það að hætta að fara í sjálfsalann í vinnunni, sleppa skyndibita í nokkrar vikur og smyrja nesti, gæti kannski snúið dæminu við á jákvæðan hátt. Einnig er hægt að skoða stærri aðgerðir eins og að fækka bílum á heimilinu, taka strætó tímabundið og fleira í þeim dúr. En það eru því miður ekki til neinar töfralausnir. Þeir tekjuhæstu eru ekki endilega með stærstu varasjóðina, þetta snýst um skynsamlegt samspil tekna og útgjalda. Það er mjög auðvelt að detta í það að eyða launahækkuninni í örlítið dýrari bíla, dýrari mat og fleira í þeim dúrnum og þess vegna er gott að líta reglulega á yfirlitið sitt og skoða hvort mögulegt sé að draga eitthvað úr útgjöldum.“

Fyrir þá sem vilja gefa fermingargjafir inn í framtíðina bendir Björn Berg á að framtíðarreikningar séu alltaf vinsælir, þar sem þeir eru bundnir til 18 ára aldurs. Ef geyma á peningana enn lengur er þó mikilvægt að huga vel að eignadreifingu og skoða vandlega hvaða fjárfestingarkostir henta best í langtímasparnaði.