Troðsla Háloftafuglinn Kristófer Acox treður með tilþrifum í gærkvöldi.
Troðsla Háloftafuglinn Kristófer Acox treður með tilþrifum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Kristján Jónsson kris@mbl.

Í Vesturbænum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára, KR-ingar, byrjuðu úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfuknattleik vel í Frostaskjóli í gærkvöldi og lögðu Njarðvík að velli 89:74 í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslitin en Njarðvíkingar hljóta að veita þeim meiri keppni í Ljónagryfjunni í Njarðvík á mánudaginn.

„Já aftur kominn á loft og flýg án meðala. Hærra flýg ég senn og ekki dauður enn,“ segir í lagi með Mannakornum. Nú efast ég svo sem um að Magnús Eiríksson missi svefn yfir úrslitakeppninni en KR-ingar eru í það minnsta ekki dauðir enn og eru líklegir til að fljúga hærra nú þegar þeir eru komnir á bragðið.

KR-ingar hafa aldrei farið á flug fyrir alvöru á þessu tímabili og þegar fyrirliðinn og stórskyttan Brynjar Þór Björnsson handarbrotnaði í vikunni bjóst maður við því að liðið gæti þurft meira en einn leik til að finna taktinn í sókninni. Greinilegt var hins vegar á KR-ingum í gær að úrslitakeppnin er byrjuð. Mátti það glögglega sjá á viðhorfi leikmanna.

Jón Arnór Stefánsson fór fyrir liðinu og hann er greinilega ekki orðinn saddur. Dreif sína menn áfram og skoraði 21 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en lék ekkert eftir það. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fékk Jón högg á hnéð í lok þriðja leikhluta en ekki var útlit fyrir að meiðslin væru alvarlegs eðlis.

Kristófer Acox átti mjög góðan leik. Skoraði 19 stig og tók 13 fráköst. Njarðvíkingar verða að finna leiðir til að halda honum betur niðri. Mörg jákvæð teikn voru á lofti í leik KR í gær. Pavel gaf átta stoðsendingar og tók 10 fráköst og þá gerði Kendall Pollard 17 stig fyrir KR. Hann er ekki í byrjunarliðinu en það eru óneitanlega góð tíðindi fyrir KR að hann hafi sýnt lit. Fordæmi eru fyrir því að Bandaríkjamaður hafi lítið sýnt hjá KR fyrir úrslitakeppni en farið á kostum þegar þangað er komið. Þar er átt við Marcus Walker sem fór á kostum þegar KR varð meistari 2011.

Terrell Vinson lék vel í fyrri hálfleik í gær en mótlætið fór illa í hann í þeim síðari. Mig grunar að hann eigi samt eftir að spila vel í þessari rimmu enda seigur leikmaður. Logi Gunnarsson skilaði sínu og var stigahæstur en yngri menn eins og Kristinn Pálsson og Maciej Baginski verða að gera meira ef Njarðvíkingar eiga að gera rósir í úrslitakeppninni. Þeir hafa hæfileikana. Ragnar Nathanaelsson leggur sig fram fyrir liðið en verður að vera skynsamari varðandi villur.