— Getty Images
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar kemur að því að gefa fermingarbörnum gjafir eru mörg okkar hugsandi yfir hvaða gjafir geta gefið börnunum í lífinu okkar nýtt og jákvætt sjónarhorn á lífið. Á fermingaraldri er unga fólkið okkar svo meðtækilegt fyrir heimspeki og jákvæðum boðskap.

Þegar kemur að því að gefa fermingarbörnum gjafir eru mörg okkar hugsandi yfir hvaða gjafir geta gefið börnunum í lífinu okkar nýtt og jákvætt sjónarhorn á lífið. Á fermingaraldri er unga fólkið okkar svo meðtækilegt fyrir heimspeki og jákvæðum boðskap. Eftirfarandi bækur eru góðar hugmyndir sem gjöf til þeirra sem skipta okkur máli. Gjafir sem breyta. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Alkemistinn

Höfundur Paulo Coelho, Forlagið. Thor Vilhjálmsson íslenskaði.

Bókin fjallar um Santiago, ungan fjárhirði í Andalúsíu, sem hefur í draumi fengið að vita um fjársjóð sem kann að bíða hans í fjarlægu landi og leggur hann af stað að leita hans fullur eftirvæntingar. Á leiðinni verður margt á vegi hans og hann uppgötvar aðra og dýrmætari fjársjóði: þau verðmæti sem búa hið innra. Alkemistinn eftir Paulo Coelho er hrífandi og mannbætandi vitnisburður um gildi þess að fylgja draumum sínum og láta hjartað ráða för.

Bókin er falleg saga um lífið og tilveruna. Hvernig áskoranir fá okkur til að vaxa og hvað lífið getur verið óvænt og óútreiknanlegt. Hvernig með þroskanum við öðlumst þakklæti og innsýn í hvað verulega skiptir okkur máli.

Allra besta gjöfin

Höfundur Jim Stovall. Guðrún G. Bergmann íslenskaði. Salka.

Bókin fjallar um ungan mann sem átti allt en vildi meira. Í stað þess að fá fjárupphæð úr erfðaskrá frænda síns fær hann ýmis verkefni að leysa. Eftir margvíslegar eldraunir hlýtur ungi maðurinn Allra bestu gjöfina en á vegferð sinni lærir hann að meta gömlu góðu mannlegu gildin og áttar sig á að fleira skiptir máli en veraldleg gæði.

Bókin er frábær áminning um hvað skiptir máli í lífinu. Hvernig það að vera til staðar fyrir aðra færir oft og tíðum meiri gleði en markmiðin sem við setjum okkur. Hvernig við getum komist út úr eigin huga með því að hugsa um aðra. Hvernig vinnan göfgar og fleira í þeim dúr.

Leyndarmálið

Höfundur Rhonda Byrne. Halldóra Sigurðardóttir íslenskaði. Salka.

Þessi bók fjallar um lögmál aðdráttaraflsins. Hvernig allt sem við gerum í lífinu löðum við að okkur. Ef við náum að stilla tilveruna og það sem við viljum öðlast á sömu tíðni, getum við kallað til okkar betra líf, andlegt og veraldlegt. Leyndarmálið felur í sér þekkingu fræðimanna, kvenna og karla, sem hafa nýtt sér lögmálið. Áhrifaríkar frásagnir lýsa hvernig þau beittu Leyndarmálinu við að uppræta sjúkdóma, öðlast auðæfi og sigrast á hvers konar hindrunum til að afreka það sem margir myndu telja óhugsandi.

Bókin hefur vakið heimsathygli á örskömmum tíma og ekki að ástæðulausu. Loksins hafa menn uppgötvað gamlan sannleika sem hefur geymst í ævafornum ritum, munnlegum heimildum, bókmenntum, trúfræði og heimspeki.

Meðal þeirra sem lifðu eftir Leyndarmálinu má nefna Einstein, Beethoven, Galileo og Edison. Hér er brotunum safnað saman í heildstæða hugmyndafræði og Leyndarmálið opinberað. Sannleiksbrot úr Miklu Leyndarmáli hafa fundist í ævafornum ritum, munnlegum heimildum, bókmenntum, trúfræði og heimspeki. Í fyrsta sinn hefur öllum upplýsingum um Leyndarmálið verið raðað saman í eina bók og útkoman er ótrúleg uppgötvun sem mun hafa örlagarík áhrif á alla þá sem kynna sér hana.

Lífsreglurnar fjórar

Höfundur Don Miguel Ruiz. Birgitta Jónsdóttir íslenskaði. Salka.

Ráðum við hvernig við lifum – eða lifum við eins og samfélagið segir okkur? Erum við sátt við þær lífsreglur sem við förum eftir? Með Toltek-fræðunum getum við öðlast heiðarlegt og gott líf.

Lífsreglurnar fjórar eru: Vertu flekklaus í orði. Talaðu af heilindum. Segðu aðeins það sem þú meinar. Passaðu að nota ekki orðið gegn þér eða til að slúðra um aðra. Beindu krafti orða þinna í átt að sannleika og kærleika. Ekki taka neitt persónulega. Ekkert sem annað fólk gerir er þín vegna. Það sem aðrir segja og gera er speglun af þeirra eigin veruleika, þeirra eigin hugarástandi. Þegar þú hættir að taka skoðanir og gjörðir annarra nærri þér verðurðu ekki lengur fórnarlamb ónauðsynlegrar vanlíðanar. Ekki draga rangar ályktanir. Hafðu hugrekki til þess að spyrja spurninga og til að biðja um það sem þú raunverulega vilt. Hafðu samskipti þín við aðra skýr svo þú komist hjá misskilningi og sárindum. Þessi eina lífsregla getur breytt lífi þínu.

Þessi bók hefur breytt lífi ótal margra úti um alla veröld.

7 venjur til árangurs

Höfundur Stephen R. Covey, Guðrún Högnadóttir ritstýrði og endurskoðaði upphaflega þýðingu Róberts H. Haraldssonar. Útgáfufélagið Vegferð.

Þessi öfluga bók er heil verkfærakista um leiðir til að lifa lífinu og verða leiðtogi í eigin lífi. Að taka sér tíma og skoða hvernig maður vill láta minnast sín í þessu lífi, að koma sér upp venjum sem eiga eftir að færa manni lífið sem maður þráir er verðmætt.

Einföld og góð bók sem breytir manni.