Málefni er varða mannréttindi og jafnrétti eru til umræðu hjá Siðmennt.
Málefni er varða mannréttindi og jafnrétti eru til umræðu hjá Siðmennt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhann Björnsson, eimspekingur og grunnskólakennari, starfar hjá Siðmennt og sér um fermingarfræðsluna á vegum hennar. Rúmlega 11% barna á fermingaaldri fara í gegnum fermingarfræðslu Siðmenntar á þessu ári. Jóhann ræðir hvað slík fræðsla fjallar um. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Rúmlega 11% barna á fermingaraldri í fermingarfræðslu á þessu ári eru í kringum 470 börn af 4.000 barna árgangi,“ segir Jóhann og bætir við að námskeið Siðmenntar séu haldin á Egilsstöðum á þessu ári fyrir 10 börn, í Reykjanesbæ fyrir 16 börn, Árborg 18 börn og yfir 30 börn á Akureyri.

Fjölbreytt fræðsluerindi fyrir börnin

Aðspurður hvað felist í borgaralegri fermingafræðslu segir Jóhann:

„Borgaraleg fermingarfræðsla snýst fyrst og fremst um að efla umhugsunarvirkni krakka, við þjálfum skapandi gagnrýni, ábyrgð og heimspekilega siðfræði. Ekki ósvipað barnaheimspeki. Síðan erum við með fjölbreytt fræðsluerindi fyrir börnin, sem dæmi um skaðsemi vímuefna, um kynheilbrigði, jafnrétti, mannréttindi og fleira. Markmið borgaralegrar fermingar er að styrkja sjálfsmynd, metnað og uppbyggilegt hugarfar. Fermingarfræðsla miðar að því að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og búa þeim dýrmætt veganesti til framtíðar.“

Jóhann hefur starfað fyrir Siðmennt frá árinu 1997. Fyrsta borgaralega ferming á vegum Siðmenntar var árið 1989.

Sameinast í fermingarfræðslu Siðmenntar

Af hverju velja börn borgaralega fermingu í auknum mæli?

„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að börn velja borgaralega fermingu. Meirihluti barnanna efast í trúmálum, þegar trú og kirkja höfða ekki til þeirra, en við erum einnig með börn sem eru trúuð en hafa áhuga á fermingarfræðslu af þessu tagi. Það skiptir í raun og veru ekki máli hverrar trúar eða lífsskoðunar þú ert. Við sameinumst í námskeiðunum sem manneskjur. Við erum einnig að fá börn sem fermast í kirkjum sem langar að fara í gegnum námskeiðið okkar, því það höfðar til þeirra.“

Á hverju byggið þið fermingarfræðsluna, heimspekikenningum? „Það er margt heimspekimenntað fólk að kenna hjá okkur en við erum ekki að leita í gamlar kenningar, frekar í hagnýtar heimspekikenningar. Börnin eru þá heimspekingarnir sjálf, þar sem þau taka að sér þetta uppgötvunarhlutverk.“

Börnin æfð í að hugsa sjálfstætt

Jóhann segir að þegar velt er upp hugmyndum á borð við rétt og rangt, þá kvikni líflegar spurningar í tímum. „Hóparnir eru misjafnir, og það eru oft og tíðum skiptar skoðanir innan hópanna, við erum ekki með námsbækur, heldur æfum börnin í að hugsa sjálfstætt,“ segir Jóhann en bætir við að ef um fræðsluefni sé að ræða tengt forvörnum og þess háttar, þá sé stuðst við ritað efni.

Hvernig upplifir Jóhann ungu kynslóðina okkar? „Almennt mjög vel. Það hefur orðið ákveðin þróun á þessum árum sem ég hef starfað fyrir Siðmennt. Þar sem nú er vinsælla að fermast borgaralega, þá fáum við fjölbreyttari hóp af ungu fólki. Áður voru börnin einbeittari í trúleysi og húmanískum kenningum, en í dag er hópurinn allskonar, sem er áhugavert að hafa ólíka aðila í hverjum tíma.“

Hvað með foreldrana? „Foreldrarnir virðast þekkja vel til Siðmenntar. Mörg þeirra sem eru að fermast eiga eldri systkin sem hafa einnig fermst borgaralegri fermingu.“

Tilgangur lífsins að finna lífsfyllinguna

Hver er tilgangur lífsins samkvæmt kenningum húmanista og Siðmenntar? „Fyrst og fremst að lifa lífinu, það er algengt grunnstef. Að við finnum tilganginn í daglegum störfum okkar, en ekki utan að okkur. Að við leggjum áherslu á það sem gefur manni lífsfyllingu í lífinu.“

Spurður um þekkta einstaklinga sem aðhyllast húmanisma nefnir Jóhann geðlækninn Viktor Frankl. „Frankl talaði mikið í þessa veru í bókinni sinni: Leitin að tilgangi lífsins. Bertrand Russell er einnig þekktur húmanisti, sem skrifaði bókina: Af hverju ég er ekki kristinn. Immanuel Kant skrifaði um hugrekkið til að hugsa sjálfstætt en það er einnig grunnstef í mörgu í húmanismanum,“ segir Jóhann og leggur áherslu á að húmanismi feli m.a. í sér að við ræktum mennskuna okkar og séum heiðarleg.

Fólki frjálst að finna sitt í lífinu

Af hverju er Jóhann sjálfur ekki trúaður? „Ég veit það í raun og veru ekki. Enda er svo margt sem ég ekki veit. Kannski áhugavert að spyrja á móti, af hverju ætti ég að vera það? Þegar ég var skiptinemi á námsárum mínum bjó ég á heimili strangtrúaðrar fjölskyldu, ég sótti kaþólskan háskóla, þar sem margir af kennurunum voru prestar. Í raun hef ég aldrei fundið neina þörf til að leita í trúna. Ég á hins vegar vini sem eru trúaðir, en ég sjálfur er ekkert sérstaklega upptekinn af trú og trúmálum annarra. Fólki er frjálst að finna sitt í lífinu.“

Jóhann segir að í dag sé meira frelsi og hann finni það sem grunnskólakennari sjálfur. „Í dag er sjálfsagt að börn fermist í kirkju, eða borgaralega, eða jafnvel ekki.“

Hvernig getum við landsmenn stutt Siðmennt og starfsmenn stofnunarinnar í verki?

„Mér finnst það ekki vera málið hvernig eða hvort Siðmennt sé studd af landsmönnum, heldur finnst mér vera mikilvægara að landsmenn standi með mannréttindum og mannúð. Það eru grundvallargildi Siðmenntar og eru mikilvægari en nokkurt félag eða stofnun.“

Hið óþekkta

En hverju trúa húmanistar varðandi málefnið um líf eftir dauðann? „Það er alls konar trú í gangi, sumir innan alþjóðlegu hreyfingarinnar, trúa því statt og stöðugt að það sé ekkert fram undan, aðrir segja að þeir bara viti það ekki. Ef það er eitthvað, þá bara gerist það eftir að við deyjum og verður þá bara að koma í ljós.“

Jóhann segir Siðmennt bjóða upp á þjónustu þegar kemur að nafngjöfum, giftingum og útförum. Formið sé ekki ósvipað því sem við þekkjum annars staðar frá, en ekki sé notast við trúarlega texta né trúarleg tákn. „Lykilatriðið er að vera í nánum samræðum við alla aðila. Hvernig þau sjá fyrir sér athafnirnar er miðpunkturinn. Árið 2018 setti Siðmennt einnig upp húmanískt viðbragðsteymi þar sem félagsmenn geta leitað til fagfólks á sviði lækninga, sálfræði, hjúkrunarfræði, félagsfræði og fleira. Siðmennt heldur einnig reglulega uppákomur og málþing þar sem ýmis málefni er brenna á samfélaginu eru rædd, markmiðið er að opna umræðuna án þess að reyna að boða einhverja eina stefnu í málunum,“ segir Jóhann að lokum.

Höf.: Jóhann Björnsson