Enginn vill verða fyrir efnahagsþvingunum, en tímasetningarnar eru misslæmar

Vladimír Pútín Rússlandsforseti heyr ekki harða baráttu um forsetaembættið vegna kosninganna á sunnudag. Hann er öruggur um sigur. En það er alltaf slegist um eitthvað og nú er það þátttakan. Pútín vill ógjarnan að Rússar sitji heima. Það mundi veikja hann í embætti.

Í einstökum héruðum Rússlands hefur verið gripið til ýmissa ráða, svo sem að kjósendur geti tekið af sér myndir við kjörstaði og sett á samfélagsmiðil. Handhafar vinsælustu myndanna fengju svo snjallsíma eða önnur eftirsóknarverð verðlaun.

Þetta minnir suma á Sovéttímann þegar kosningar snerust líka um þátttöku. Þá var boðið upp á tónleika við kjörstaði og fleira áhugavert fyrir þá sem mættu fyrir Kommúnistaflokkinn. Svipaðar hugmyndir hafa raunar heyrst hér á landi þar sem lýðræðið þykir þó standa styrkari fótum.

En ef til vill eru áhyggjur Pútíns óþarfar. Fréttir af nýjum efnahagsþvingunum Breta og Bandaríkjamanna, auk ásakana fleiri Vesturlanda á hendur rússneskum stjórnvöldum, gætu jafnvel dugað betur en snjallsímaverðlaun til að laða Rússa á kjörstað.