[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is B-landslið Íslands í handknattleik karla tekur þátt í æfingamóti í Hollandi dagana 4.-7.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

B-landslið Íslands í handknattleik karla tekur þátt í æfingamóti í Hollandi dagana 4.-7. apríl og mætir japanska landsliðinu undir stjórn Dags Sigurðssonar auk A og B-landsliða Hollands sem Erlingur Richardsson þjálfar. Um er að ræða fyrstu leiki B-landsliðsins á þessu ári en það hefur nú skipt um nafn en liðið hefur gengið undir vinnuheitinu Afrekshópur HSÍ undanfarin ár.

Einar Guðmundsson, afreksstjóri HSÍ, hefur eftir sem áður þjálfun liðsins á sinni könnu en Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðþjálfari karla, verður með honum á flestum æfingum í undanfara ferðarinnar til Hollands. Æfingar hefjast mánudaginn 26. mars.

Einar segir leikina í Hollandi verða kærkomið verkefni fyrir liðið sem skipað er 18 leikmönnum sem allir leika með félagsliðum á Íslandi. Nokkrir leikmenn hafa leikið átt sæti í A-landsliðinu og tveir þeirra, Ágúst Elí Björgvinsson og Bjarki Már Gunnarsson, tóku þátt í EM í Króatíu í janúar. „Liðið er tækifæri fyrir leikmenn til að stíga milliskrefið frá yngri landsliðunum og upp í A-landsliðið en er einnig vettvangur fyrir þá sem detta út úr myndinni í A-liðinu til þess að vinna sér sæti þar á nýjan leik.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir strákana í liðinu að fá tækifæri til þess að mæta góðum landsliðum,“ sagði Einar í samtali við Morgunblaðið þegar hann tilkynnti um val sitt á hópnum en hann fer með 16 leikmenn til Hollands þar leiknir verða fjórir leiki á jafnmörgum dögum.“

Einar segir starfsemi B-landsliðsins og forvera þess undanfarin ár vera nauðsynlegan þátt í styrkja leikmenn á leið þeirra að A-landsliðinu.

„Þá er gott fyrir yngri strákana að kynnast því að æfa undir stjórn Guðmundar Þórðar um leið og hann kynnist þeim betur og sér þá á fullu við æfingar sem er annað en að horfa á þá í leikjum eða af upptökum frá leikjum,“ segir Einar.

Breyttar áherslur

„Við munum æfa af miklum krafti og nýta vel þann tíma sem við höfum. Það verður nokkuð um breytingar hjá okkur því Guðmundur kemur inn með allar sínar breytingar á leik okkar, jafnt í vörn sem sókn, og færa þær að þeim sem hann verður með hjá A-landsliðinu,“ segir Einar sem reiknar með að þetta þýðir nokkrar breytingar á leik B-landsliðsins frá því sem verið hefur. Reyndar er um að ræða sama fyrirkomulag og var hjá forverum Guðmundar Þórðar, Aroni Kristjánssyni sem ýtti Afrekshópnum af stað á sínum tíma, og Geir Sveinssyni. Þeir lögðu línurnar um leikskipulag liðsins og tóku í flestum tilfellum þátt í öllum æfingum.

Breytingar á varnarleiknum

„Guðmundur vill til að mynda gera nokkrar breytingar á varnarleiknum frá því sem var undir stjórn Geirs og þá er það okkar að vinna eftir því skipulagi,“ sagði Einar. „A-landsliðsþjálfarinn leggur línurnar fyrir bæði A og B-landsliðið eins og verið hefur og það er mitt að vinna samkvæmt því með leikmönnum liðsins á hverjum tíma.“

Einar segir að unnið sé af krafti við að leita að fleiri leikjum fyrir B-landsliðið sem gætu farið fram í haust og einnig væri horft til áramótanna eins og þeirra síðustu þegar leikið var gegn japanska landsliðinu hér á landi. Milli þess sem leikið er þá verða áfram reglulegar æfingar hjá hópnum eins og verið hefur undanfarin misseri. „Við freistum þess að nýta hvern þann tíma sem gefst þegar hlé er á keppni í Olísdeildinni til þess að hóa hópnum saman til æfingar til þess að halda mönnum við efnið þar þeir geta sýnt sig fyrir landsliðsþjálfaranum,“ sagði Einar Guðmundsson, afreksstjóri HSÍ og þjálfari B-landsliðsins í handknattleik karla.