Túlkandinn Hann er „ heimspekilegastur, ljóðrænastur og viðkvæmastur,“ segir píanóleikarinn Hélène Grimaud um 4. konsert Beethovens.
Túlkandinn Hann er „ heimspekilegastur, ljóðrænastur og viðkvæmastur,“ segir píanóleikarinn Hélène Grimaud um 4. konsert Beethovens. — Deutsche Grammophon/Mat Hennek
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Hún var eitt undrabarna píanóheimsins, var komin með útgáfusamning strax á unglingsaldri og flutningur hennar á 2. píanókonserti Rachmaninoffs kom út á plötu þegar hún var aðeins 16 ára.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Hún var eitt undrabarna píanóheimsins, var komin með útgáfusamning strax á unglingsaldri og flutningur hennar á 2. píanókonserti Rachmaninoffs kom út á plötu þegar hún var aðeins 16 ára. Síðan hefur Hélène Grimaud verið ein skærasta stjarna sinnar kynslóðar í klassíska tónlistarheiminum. Hún er nú 48 ára, hefur hljóðritað tugi platna undir merki Deutsche Grammophon, hefur leikið verk höfuðtónskálda með helstu sinfóníuhljómsveitum og stjórnendum og kemur fram á um eitthundrað tónleikum árlega. Loksins er komið að Íslandi en Grimaud leikur á sunnudagskvöldið kemur einleik í 4. píanókonserti Beethovens á tónleikum hinnar virtu Sinfóníuhljómsveitar Gautaborgar í Hörpu.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika í Gautaborg í apríl í fyrra, við góðar undirtektir. Og nú er komið að Gautaborgarsinfóníunni að leika hér. Auk flutnings Grimaud með hljómsveitinni á víðfrægum konserti Beethovens eru á efnisskránni svíta úr óperunni Der Rosenkavalier eftir Strauss og frumraun Sibeliusar í sinfóníusmíðum.

Hljómsveitarstjóri er hinn finnski Santtu-Matias Rouvali, einn eftirsóttasti ungi stjórnandinn um þessar mundir. Hann hefur í tvígang stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands við mikið lof en hefur gegnt stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg síðan í fyrra.

Átti að leika við opnun Hörpu

Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferð Gautaborgarsinfóníunnar um Norðurlönd og hefur verið uppselt á tónleikana í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Osló. Hélène Grimaud hefur verið gestalistamaður hljómsveitarinnar í vetur, með sérstakri áherslu, segir hún, á þennan konsert Beethovens, þann 4. Og hún hlakkar mikið til að koma til Íslands.

„Ég hlakka gríðarlega mikið til að leika í tónlistarhúsinu í Reykjavík,“ segir hún. „Það stóð til að ég kæmi þar fram á opnunarhátíðinni, þegar húsið var tekið í notkun, en því miður veiktist ég og tónleikunum var aflýst. Síðan hef ég beðið allan þennan tíma eftir tækifæri til að koma til Íslands að spila.“

Grimaud ólst upp í Aix-en-Provence í Suður-Frakklandi. Hún var, að eigin sögn, sjálfstæð og frekar mótþróafullt barn, en þegar hún var sjö ára uppgötvaðist að hún hafði afburða tóneyra og var látin byrja að leika á píanó. Hún heillaðist af hljóðfærinu og þótti ekkert verk sem henni var sýnt erfitt að læra; á fjórum árum lauk hún námsefni sem frekar einbeittir nemendur komust yfir á átta. Þar hjálpaði, telur hún, að hún er með svokallaða samskynjun sem uppgötvaðist þegar hún var ellefu ára, sér til að mynda tóna sem liti. Það getur háð sumum en verulega hjálpað öðrum, til að mynda listamönnum eins og henni.

Tilfinningar frekar en agi

Grimaud var tólf ára gömul þegar hún sótti um inngöngu í Konservatoríið í París, og komst inn. Sjálfstæði hennar og þörf til að fara eigin leiðir auðvelduðu ekki námið – hún vildi ráða miklu um það hvaða verk hún léki og þar skipti máli að hún er örvhent og þótti sum klassísk tónskáld mismuna örvhentum píanóleikurum. Hún hefur sagt að í tónlist þeirra leiki vinstri höndin aðallega hljóma en sú hægri fái laglínuna. Það hafi ekki verið fyrr en Chopin leyfði vinstri hendinni að blómstra sem það hafi breyst.

En leikur Grimaud vakti athygli, Hún byrjaði að hljóðrita fimmtán ára gömul og var fljótlega eftir það komin í hóp eftirlætispíanóleikara margra. Þó ekki þeirra sem aðhyllast nákvæma túlkun eftir uppskrift tónskáldanna – forstjóri Deutsche Grammophon hefur kallað þá „íhaldssömu klassísku lögregluna“ – fyrir þá er Grimaud oft of sjálfstæð og ögrandi. Hún er meðvituð um það og sagði eitt sinn í viðtali við The New Yorker að túlkun sín væri ekki fyrir alla, hún gæti verið of hvatvís, tilfinnigarík frekar en öguð. En það er einmitt það sem svo margir dá við leik hennar.

Svo er annað sem gerir Hélène Grimaud óvenjulega í hópi stjarna samtímans í klassíkinni, það hvað hún kemur víða við. Hún er slyngur rithöfundur, hefur skrifað þrjár sjálfsævisögulegar bækur, og er virk í mannréttindabaráttu – og ekki síður í baráttu fyrir velferð dýra. Árið 1999 stofnaði hún verndarmiðstöð fyrir villta úlfa á allnokkrum hekturum sem hún keypti í New York-fylki og hefur unnið ötullega, ásamt samstarfsfólki sínu, að því að úlfum fjölgi í náttúrunni og þeir eigi sér griðlönd.

Grimaud kveðst afar ánægð með að hafa verið boðið að vera staðarlistamaður með Gautaborgarsinfóníunni í vetur og geta einbeitt sér þar að túlkun verka á borð við 4. konserts Beethovens.

„Vitaskuld er hægt að koma að hrífandi konsertum með öðrum hætti, til að mynda á tónlistarhátíðum þar sem maður hittir meðleikara með skömmum fyrirvara áður en við leikum einu sinni saman. En ekki síst þegar verk eins og þetta á í hlut, þá kýs ég frekar að vera í samstarfi sem varir svona lengi því ég tel að þá getum við hljómsveitin þroskast saman og túlkað verkið á annan hátt, eftir því sem við kynnumst betur.

Reyndar hef ég haft löng kynni af Gautaborgarhljómsveitinni – ég lék fyrst með henni fyrir þremur áratugum, 1988, en þetta verk höfum við aldrei flutt áður saman og þá er ég að vinna með Santtu-Matias Rouvali í fyrsta skipti.

Þessi píanókonsert Beethovens er mjög ólíkur hinum, til að mynda konsertum númer 3 og 5 þar sem maður getur hreinlega fundið sér leið gegnum þá með hressilegri atlögu. Nei, sá 4. er einstakur í hópi píanókonserta hans: er heimspekilegastur, ljóðrænastur og viðkvæmastur; hann kallar í raun á anda kammertónlistar, bara á stærri skala. Og útkoman er best ef hjörtu okkar hljóðfæraleikaranna ná að slá í takt.

Við þurfum að anda saman og það næst með því að nálgast verkið aftur og aftur, eins og við njótum þess að gera núna.“

Að upplifa ný ævintýri

Eru gestirnir á lokatónleikum ferðarinnar þá heppnari en á þeim fyrstu – heyra bestu útkomuna?

„Nei!“ svarar hún og hlær. „Þetta er ekki ferli heldur snýst um nánd. Það er eitt kraftaverkið í þessu fagi að engir tvennir tónleikar eru eins. Ekki bara vegna þess að við leikum í ólíkum sölum og á ólík hljóðfæri, heldur byggist á því hvað við gerum. Það væri aldrei skynsamlegt að reyna að endurskapa það sem við gerðum á tónleikum daginn áður, það væri aldrei örvandi eða áhugavert að reyna að endurtaka sig. Á hverjum tónleikum verður maður að vera algjörlega opinn fyrir einhverju nýju og áhugaverðu. Tónlistarmaður verður að fara á fætur á hverjum degi spenntur fyrir því sem hann mun takast á við og upplifa þann daginn. Þá skiptir ekki máli í hve mörg ár hann hefur unnið með þessi verk. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt, á hverri æfingu, á hverjum tónleikum; þessi tónlist býr yfir svo mikilli dýpt að það er alltaf hægt að ganga lengra í túlkuninni. Upplifa ný ævintýri.“

Nánast trúarleg upplifun

Og tónleikagestir munu fá að heyra túlkun listamanns sem gjörþekkir 4. konsertinn.

„Ég hef leikið hann í ein tuttugu ár, fyrst með Kammerhljómsveit Evrópu og Claudio Abbado. Svo hljóðritaði ég konsertinn á tónleikum með New York-fílharmóníunni og Kurt Masur. Og hef flutt verkið mörgum sinnum með ýmsum hljómsveitum og stjórnendum, og líka án stjórnenda með kammersveitum. Þetta er eitt hinna stóru verka tónlistarinnar sem ein ævi dugir ekki til að komast til botns í.“

Grimaud hefur á seinni árum gert talsvert af því að flytja og hljóðrita verk samtímatónskálda og hefur einnig átt í athyglisverðu samstarfi við myndlistarmenn, einkum hinn kunna vídeólistamann Douglas Gordon sem og sambýlismann sinn, ljósmyndarann Mat Hennek. Samstarfi sem hún segir auðga andann þegar báðir aðilar hafa eitthvað nýtt fram að færa. En hún segir líka að ekkert jafnist á við flutning á tónleikum. Í réttum sal nær upplifun gesta af hljómunum að vera nánast líkamleg; tónlistin fer í gegnum mann og vefur sig um mann, segir hún. „Tilfinningin við að vera alein í stórum sal með hljóðfærinu og áheyrendum er nánast trúarleg upplifun, sem er dásamleg og ég kýs alltaf að það sé kjarninn í minni list.“

Og svo eru það hennar menn í tónlistinni. Það er erfitt að bera saman einleiksverk og hljómsveitarverk, segir hún, en „hvað hljómsveitarverk varðar eru Brahms og Beethoven mér hjartfólgnastir – þýski rómantíski skólinn stendur mér nærri,“ segir Grimaud.