Einar Benediktsson
Einar Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Benediktsson: "Sagan hefur þráfaldlega sýnt, að þetta voru heillaráð því afstaða Breta til samstarfs sem fellur að hagsmunum meginlandsríkja, hefur ætíð verið efablandin eða tvíbent."

Í tímamótaboðskap sem Winston Churchill flutti í Zürich 1946 hvatti hann Frakka og Þjóðverja til að stofna sem fyrst Bandaríki Evrópu, en án Breta.1) Sagan hefur þráfaldlega sýnt, að þetta voru heillaráð því afstaða Breta til samstarfs sem fellur að hagsmunum meginlandsríkja, hefur ætíð verið efablandin eða tvíbent. Varla var við öðru að búast en að Bretar myndu hafna þátttöku í stofnun Evrópusambands framtíðarinnar með gerð Rómarsáttmálans árið 1956? Í framhaldinu var það óraunhæft, að umbylta mætti strax hinu nýja tollabandalagi sex-veldanna með því tengdu evrópsku fríverslunarsvæði. Þeir samningar haldnir í OEEC forvera OECD, kenndir við breska samningamanninn Maudling, stóðu til 1959, þá er Frakkar réðu slitum þeirra.

Höfundi þessara lína er þessi atburðarás einkar minnisstæð. Hann var þá nýráðinn í starfslið OEEC, fyrstur Íslendinga. Það var heppni að vera settur í það verkefni að gera framkvæmdaáætlun um fríverslun með sjávarafurðir, undir stjórn Gunnars Gundersen, ráðuneytisstjóra í Oslo. Gert var ráð fyrir afnámi allra tolla, hafta og ríkisstyrkja fyrir sjávarafurðir og greiningar gerðar á áhrifum á viðskipti, svo sem föng voru á. Þessi skýrslugerð kom okkur einkar vel vegna samninga Íslands á árum sem í hönd fóru.

En þegar fríverslunarsvæðið var úr sögunni taka Bretar til við að stofna EFTA árið 1960 með Norðurlöndunum, Sviss, Austurríki og Portúgal. Þá hófust árangurslausar tilraunir þeirra að komast í ESB þann rúma áratug, sem de Gaulle var enn við völd. Sömu útreið fékk Ísland gagnvart EFTA vegna andstöðu Breta, þar til að aðild okkar kom árið 1971. Sagan hefur kennt okkur ýmislegt varðandi alþjóðleg flokkspólitísk tengsl. Það versta af því tagi voru að sjálfsögðu sovésk áhrif eða stjórn á íslenskum kommúnistum. Af hinu góða hafa verið tengsl íslenskra socialdemokrata við systurflokkana á Norðurlöndum. Við eigum stuðningi þáverandi leiðtoga norrænna krata það að þakka, að árunum eftir 1960 var þrýst svo á Breta að við gátum gengið í EFTA. Þetta var ekki hvað síst vegna framgöngu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar og sterkrar forystu Bjarna Benediktssonar

Í áföngum stækkaði ESB að núverandi 28 aðildarríkjum og stofnaði myntbandalag með upptöku evru, sem nú er lögeyrir 19 ríkja, sem hafa staðist álag bankakreppunnar. ESB hefur skilað sínu í feikimiklum vexti og velmegun. Það eru hrakspár einar að vegna ólíks þróunarstigs, tungumála og sögu sé myntbandalagið dauðadæmt. Reynslan sýnir hið gagnstæða og að ríkin finna styrk og sýn betri framtíðar í þessari samvinnu. Aðildarsinnar telja einmitt, að athugun á upptöku evru sé tímabær vegna sögulegra ófara þeirrar örmyntar sem við búum við.

En ekki laðar sameiginleg sjávarútvegsstefna að Evrópusambandinu, svo sem skýrt og skorinort er tíundað í ritstjórnargrein Morgunblaðsins 12. mars. Engu verður við þá grein bætt, að þessi stefnuónefna hefur brugðist í hvívetna: fiskistofnar Norðursjávar hafa hrunið m.a. af brottkasti, fiskveiðum og sjómönnum er haldið uppi með óhóflegum styrkjum og fáránlegar kröfur við væntanleg ný aðildarríki hafa spillt fyrir eðlilegu samstarfi tryggra bandamanna. Þessi gjaldþrota tilraun á að hverfa að fullu og öllu.

Margaret Thatcher studdi hinn sameiginlega innri markað ESB en í ræðu sinni í Brugge 1988 réðst hún jafnframt gegn stofnun evrópsks ofurríkis, „superstate“. Fyrir okkur þá sendiherra í Brussel var slíkt fjarri raunveruleikanum enda yfirlýsingar af þessu tagi ætlaðar til að sýna ættjarðarást og efla fylgið hjá heimamönnum. Svo stóð á, að þá ákvörðun vildi forsætisráðherrann kynna undirrituðum í eftirminnilegu samtali í 10 Downing Street í október 1989. Vel mátti skilja að þarmeð höfðu Bretar líka sagt hingað og ekki lengra.

Bretar höfnuðu þátttöku í Myntbandalagi Evrópu og evrunni vegna mikilvægis bankastarfsemi og fjármálaþjónustu í London og tengdum aflandseyjum. Fyrir David Cameron og breska Íhaldsflokkinn varð það síðan hinn versti ósigur 2012 að standa einir gegn Bankalöggjöf ESB. Cameron streittist gegn því fyrirheiti Rómarsamningsins að koma á „ an ever closer union“. Það ákvæði skyldi fellt niður og efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það varð 2016 og breska ríkisstjórnin taldi gefið mál að útkoman yrði ákveðinn stuðningur við aðild. Að svo varð ekki má líkja við pólitískan jarðskjálfta, sem ekki linnir í hinu flókna Brexit-skeiði ESB. Samkvæmt ákvæðum 50. gr Lissabon samningnsins skal ljúka samningnum í mars 2019 en svo virðist að fallist verði á ósk Breta um tveggja ára aðlögunartímabil að auki.

Í mars 2018 verður ekkert sagt með vissu um úrsagnarskilmála Breta. Versta niðurstaðan yrði enginn samningur, sem myndi leiða til alvarlegs efnahagslegs áfalls af þeirri stærðargráðu að það hlýtur að útilokast með vísan til mannlegrar skynsemi. En hvað þá? Þau leiðtogarnir Macron og Merkel hafa gefið í skyn að samfara Brexit skuli ráðist í breytingar á starfsemi ESB, sem gætu þýtt aðgreiningu aðila. Það þýðir væntanlega að sum þeirra gætu gengið lengra en önnur í samrunaferlinu.

Norski sendiherrann, Cecilie Landswerk, skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið 10. mars um þá stöðu, sem EES-samningurinn skapar okkur EFTA/EES- löndum um aðgang að innri markaði ESB. Af sjálfu leiðir að framundan er náið samstarf Íslands og Noregs um hagsmunagæslu á þeim óvissutímum á alþjóðavettvangi, sem Björn Bjarnason bendir á. Pólitískan stuðning ætti að finna i hinum stóru samtökum hægri- og miðflokka, European People´s Party – EPP sem Sjálfstæðisflokkurin tengdist áður. Í þeim samtökum eru þeir evrópskir stjórnmálaflokkar sem stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa litið til sem bræðraflokka, þ.e. Moderaterna í Svíþjóð, Höyre í Noregi, konservatífir í Danmörku, CDU í Þýskalandi og miðju-hægri flokkar Frakklands og Ítalíu.

Með áfrýjunarorðum Churchills frá 1946, skyldi stefnt að þátttöku Rússa í Sameinuðu þjóðum Evrópu og mætti íhuga það!

1) Orðrétt : „ In all this urgent work, France and Germany must take the lead together. Great Britain, the British Commonwealth of Nations, mighty America, and I trust Soviet Russia – for then indeed all would be well – must be the friends and sponsors of the new Europe and must champion its right to live and shine.“

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.

Höf.: Einar Benediktsson