Dansbylting Milljarður reis í Hörpu í fyrra undir tónlist DJ Margeirs.
Dansbylting Milljarður reis í Hörpu í fyrra undir tónlist DJ Margeirs. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is „Milljarður rís,“ dansbylting gegn kynbundnu ofbeldi, verður í dag milli kl.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

„Milljarður rís,“ dansbylting gegn kynbundnu ofbeldi, verður í dag milli kl. 12 og 13 í Hörpu í boði UN Women á Íslandi og Sónar Reykjavík, en viðburðurinn verður samtímis í Hofi á Akureyri, Félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Hljómahöllinni á Suðurnesjum, Íþróttahúsinu í Neskaupstað, Þrykkjunni Vöruhúsi, Íþróttahúsinu á Egilsstöðum, Félagsheimilinu á Hvammstanga og Óðali í Borgarnesi. Í ár tileinkar UN Women á Íslandi dansinn konum af erlendum uppruna sem munu flytja nafnlausar frásagnir kvenna.

Tatjana Latinovic var ein af stofnendum Samtaka kvenna af erlendum uppruna árið 2003, hún er formaður innflytjendaráðs og varaformaður Kvenréttindafélags Íslands. Hún er ein talsmanna #metoo hóps erlendra kvenna á Íslandi. „Markmiðið með stofnun Samtaka kvenna af erlendum uppruna var að gefa erlendum konum á Íslandi rödd og standa vörð um hagsmuni þeirra. Þá voru fleiri konur innflytjendur en karlar, það voru fordómar og staðalímyndir aðallega um konurnar. Sú staða breyttist eftir 2007 með komu fleiri erlendra karla.“ Tatjana áætlar að um 1800 konur séu skráðar á síðu samtakanna. Hún var lengi formaður og í stjórn en er nú almennur félagsmaður. „Við skrifuðum umsagnir um frumvörp, töluðum fyrir breytingum á löggjöf, atvinnuréttindum og það var mikið hagsmunamál að gera íslenskukennslu aðgengilegri.“

Nafnleysi í #metoo

Tatjana og fleiri tóku eftir að mjög fáar konur af erlendum uppruna voru í #metoo hópunum.

„Þess vegna stofnuðum við lokaðan #metoo hóp kvenna af erlendum uppruna. Yfir 650 konur eru í hópnum, en það sem einkenndi hann og gerði hann öðruvísi en hina #metoo hópana var nafnleysi. Flestar konurnar vildu ekki að koma fram undir nafni og vildu frekar senda sögur í skilaboðum til stjórnenda hópsins eða hringdu. Aðeins 80 voru tilbúnar að skrifa undir yfirlýsinguna. Þetta segir okkur að enn er langt í land með að samfélagið nái að vinna traust þessara kvenna, en það sem greinir sögur þeirra helst frá sögum íslenskra kvenna er kerfisbundin mismunun. Sögurnar þeirra lýsa ofbeldi á heimilum og vinnustöðum og hvernig þær mæta síðan skilningsleysi lögreglu, heilbrigðiskerfisins og barnaverndarnefndar í framhaldinu.“