Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Elektra Ósk Hauksdóttir og Gabríela Jóna Ólafsdóttir.
Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Elektra Ósk Hauksdóttir og Gabríela Jóna Ólafsdóttir. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Annað barn Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur fermist á þessu ári, dóttirin Elektra Ósk Hauksdóttir. Fyrir á hún Gabríelu Jónu en yngsta barn þeirra hjóna; Herdísar og Hauks Adolfssonar, er Þorvaldur Þór.

Annað barn Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur fermist á þessu ári, dóttirin Elektra Ósk Hauksdóttir . Fyrir á hún Gabríelu Jónu en yngsta barn þeirra hjóna; Herdísar og Hauks Adolfssonar, er Þorvaldur Þór. Mæðgurnar ætla allar að klæðast ljósum fötum í fermingunni. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Hvað skiptir máli á fermingardaginn að þínu mati?

„Að hann lifi sem jákvæð minning í huga fermingarbarnsins og allra þeirra sem að honum koma,“ segir Herdís Anna.

Nú rak ég augun í að þið verðið allar í ljósu. Hvað táknar sá litur í þínum augum?

„Mér finnst hátíðlegt að klæðast ljósum fötum og það fylgir því bjartsýni og sérstaklega þegar það er byrjað að vora. Fermingin er einmitt viðburður sem mér finnst viðeigandi að sé bjart yfir; við erum að fagna vorinu í lífi þessara barna sem eru að fermast.“

Hvar verður fermingin?

„Fermingin verður í Grafarvogskirkju og veisluna ætlum við að hafa heima, það er ágætis pláss hjá okkur og okkur finnst fylgja því ljúf stemning að geta boðið fólki inn á heimilið.“

Hvernig skipuleggurðu hana?

„Ég skipulegg hana með hinum heimilisdýrunum, það er gott fyrir fjölskylduna þegar við erum öll að vinna að sama markmiðinu og það taka allir þátt í því en aðallega ræður fermingarbarnið för. Hún vissi hvað hún vildi. Hún vill hafa gott að borða og nóg að borða, seríur, gasblöðrur, risaköku og dj Dóru Júlíu vinkonu okkar til að halda uppi stemningu. Svo vinnum við bara að því að láta þetta rætast í sameiningu.“

Hvaða áherslu leggur þú á skemmtun í veislunni?

„Aðalskemmtunin er að fá að fylgjast með fermingarbarninu og gleðjast með því á þessari stundu og mér finnst mjög mikilvægt að fermingarbarnið sjálft sé virkt í veislunni og ávarpi gestina og bjóði þá velkomna í sína veislu.

Ég get að miklu leyti tekið undir máltækið „maður er manns gaman“; því fleira og fjölbreytilegra fólk sem mætir í veisluna, þeim mun skemmtilegra. Ég held sjálf gjarnan stór partí og mér finnst engu skipta, þegar ég er hvort eð er farin að taka til og skipuleggja veitingar, hversu margir mæta. Ég hef það líklega frá afa mínum, dr. jur. Gunnlaugi Þórðarsyni, en hann fór stundum út á götu til að sækja fleira fólk í partíin sín ef honum fannst þau ekki nógu krydduð.

Annars er góð skemmtun að borða góðan mat en að sjálfsögðu er skemmtilegt að geta lífgað upp á stemninguna með einhverri óvæntri gleði og Jón Víðis, töframaður og frændi okkar, hefur ósjaldan hjálpað til við það, hver veit hvað við gerum núna.“

Elektra Ósk fermingarbarn

Hvað geturðu sagt mér um þennan stóra dag í lífi þínu?

„Við erum búin að vera að undirbúa þennan dag lengi og ég er búin að vera að hugsa um hann í örugglega næstum ár. Það er svolítið gaman að vinna svona lengi að því að undirbúa eitthvað því þá er eftirvæntingin svo mikil.

Fermingarveislan verður haldin heima og ég ætla bara að leyfa sem flestum að gleðjast með mér og hafa skemmtilegt partí, borða góðan mat og hafa það huggulegt.“

Hvaða þýðingu leggur þú í ferminguna?

„Þetta er mjög erfið spurning en þetta er svona eins og nýr kafli í lífinu. Við undirbúum okkur og lærum meira um lífið og svo verðum við vonandi tilbúnari til að takast á við framhaldið þegar þessum kafla lýkur.“

Hvar fékkstu kjólinn sem þú verður í?

„Kjóllinn sem ég verð í er fermingarkjóll Gabríelu systur minnar sem hún var í fyrir 12 árum. Hann var keyptur í Karen Millen og er mjög hátíðlegur úr silki, skreyttur litlum perlum.

Mér finnst mjög gaman að vera í sama kjól og hún. En svo ætla ég að gera eins og eurovisionkynnir og skipta um kjól í miðju partíi og fara í aðeins einfaldari kjól sem ég keypti í Guess í Ameríku á síðasta ári og nýju strigaskóna mína. Til gamans má geta þess að Gabríela systir er í brúðarkjól mömmu.“

Verður þú í tveimur kjólum?

„Já, ég verð í hátíðlegri kjólnum fyrripartinn og svo í allt öðrum stíl seinnipartinn.“

Ertu trúuð?

„Já, ég er trúuð á minn hátt. Ég trúi sérstaklega á kærleikann og þegar ég sá einkunnarorðin sem systir mín var með í sinni fermingu töluðu þau svo til mín að ég ákvað að nota þau líka. Einkunnarorðin mín eru: Keppið eftir kærleikanum, sækist eftir gáfum andans.“

Hvað langar þig í í fermingargjöf?

„Mig langaði í vespu en hætti við. Ég fæ nýtt herbergi sem er verið að útbúa uppi á lofti, það er ekki stórt en þar er ég meira út af fyrir mig. Það var verið að mála það, en mig langaði að hafa það eins og súkkulaðiís á litinn og það tókst ótrúlega vel.

Og svo fæ ég ferð til útlanda með fjölskyldunni sem ég er mjög ánægð með því ég hef áhuga á að ferðast og vil helst gera skemmtilega hluti með fjölskyldunni og svoleiðis.“

Gabríela Jóna Ólafsdóttir, systir fermingarbarnsins

Hvaða minningu áttu frá þinni fermingu?

„Ein eftirminnilegasta minningin er án efa þegar Hannes bróðir mömmu tók hljóðnemann í fermingunni minni og söng fyrir mig Bella símamær, en ég er kölluð Bella af þeim sem þekkja mig vel. En auðvitað var allur dagurinn einstakur, allt frá því að Elektra systir mín, sem þá var tveggja ára, greip fram í fyrir prestinum í miðri athöfn þar til í lok dagsins þegar ég ákvað að kveðja alla fjölskylduna með faðmlagi og þakka fyrir komuna. En samtals komu um hundrað manns í veisluna svo þetta tók svolítinn tíma.“

Hvað gera góðar systur fyrir yngri systur fyrir ferminguna?

„Það sem við gerum dag hvern er að við veitum þeim stuðning og látum þær vita að þær séu elskaðar.“

Hvaða hlutverk hefur æðri máttur í þínu lífi?

„Ég aðhyllist ekki nein ein trúarbrögð en það má segja að ég trúi á lífið og að æðri máttur fyrir mig sé kærleikur. Það er erfitt að finna nákvæmlega hvaða hlutverki æðri máttur gegnir í mínu lífi en það er allavega mjög mikilvægt hlutverk “

Hefur þú stutt systkin þín í trúarlegu tilliti?

„Ætli ég hafi ekki stuðlað að því að þau fræðist um trúarbrögð og trú og séu í tengslum við sjálf sig og umhverfið, hið veraldlega og hið andlega. Ég hef alltaf trúað á kærleikann, sama í hvaða mynd, og hef haft fyrir því að þau finni kærleika ekki bara frá mér og öðrum nánum en frá umhverfinu og innra með sér sjálfum einnig.

Mikilvægast þykir mér þó að systkini mín séu meðvituð og hamingjusöm með sig sjálf. Það er svo mikilvægt að vera í tengslum við tilfinningar sínar og ekki vera smeyk við að tjá þær.“

Ertu með skilaboð til fermingarbarna?

„Að njóta fermingardagsins, já og að muna að þakka fyrir allar gjafirnar.“

Eitthvað að lokum?

„Já, kannski bara að minna fólk á að keppa eftir kærleikanum.“