Phoenix Ólafía Kristinsdóttir á LPGA-mótinu í Phoenix í gær.
Phoenix Ólafía Kristinsdóttir á LPGA-mótinu í Phoenix í gær. — Ljósmynd/LPGA
Golf Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Lokaholan gerði Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur erfitt fyrir á fyrsta degi Founders Cup í Phoenix í Bandaríkjunum í gær, en mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni í golfi.

Golf

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Lokaholan gerði Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur erfitt fyrir á fyrsta degi Founders Cup í Phoenix í Bandaríkjunum í gær, en mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni í golfi. Eftir að hafa verið í ágætum málum lék Ólafía lokaholuna á sex höggum, tveimur höggum yfir pari. Hún endaði hringinn einnig á tveimur höggum yfir pari og þarf að vinna sig upp um að minnsta kosti þrjú högg í dag til að komast í gegnum niðurskurð.

Ólafía fékk þrjá fugla á hringnum í gær, á 5., 8. og 15. holu, en einnig þrjá skolla, á 3., 6., og 12. holu, auk fyrrnefnds skramba.

Þegar Morgunblaðið fór í prentun og drjúgur hópur kylfinga hafði lokið leik var Ólafía í 110.-122. sæti af 144 kylfingum. Karine Icher frá Frakklandi var í efsta sætinu á -5 höggum en gæti hafa misst það í nótt. Hin sænska Anna Nordqvist vann mótið í fyrra en hún lék á -3 höggum í gær. Ólafía var tveimur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn á þessu sama móti í fyrra.

Mótið í Phoenix er fimmta mótið á LPGA-mótaröðinni í ár. Þetta er þriðja LPGA-mót Ólafíu í ár en hún varð í 26. sæti á fyrsta mótinu og komst ekki í gegnum niðurskurð á því næsta. Eftir það tóku við tvö mót í Asíu þar sem færri komust að en á öðrum mótum (keppendur valdir eftir peningalista síðasta árs) og var Ólafía ekki þar á meðal.