Hafnarfjarðarbær sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi vegna fréttaflutnings um aðkomu bæjarins að málum tengdum húseigninni á Austurgötu 36, en eignin er timburhús sem var dæmt ónýtt í apríl í fyrra eftir að upp komst um veggjatítlur og myglu í því.

Hafnarfjarðarbær sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi vegna fréttaflutnings um aðkomu bæjarins að málum tengdum húseigninni á Austurgötu 36, en eignin er timburhús sem var dæmt ónýtt í apríl í fyrra eftir að upp komst um veggjatítlur og myglu í því.

Bærinn vill koma því á framfæri að bæjarráð samþykkti 10. maí í fyrra að styrkja húseigendurna um allt að 3,7 milljónir króna til niðurrifs hússins. Sú ákvörðun standi og með henni komi fram stuðningur bæjarins við húseigendur.

Þá hafi umsókn um niðurrif verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 11. október í fyrra og það standi. Rangt sé sem komið hafi fram í fjölmiðlum að leyfi til niðurrifs hafi verið afturkallað, heldur standi á lóðarhöfum að uppfylla öll ákvæði byggingarreglugerðar, s.s. að tilgreina byggingarstjóra.

Auk þess hafi bæjarstjórn samþykkt á fundi sínum 14. mars sl. breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar í samræmi við umsókn lóðarhafa, sem hyggjast byggja steinhús á lóðinni.

Hafnarfjarðarbær segir að málsmeðferð bæjarins hafi verið í samræmi við lög og reglur og málsmeðferðartími hafi ekki verið lengri en eðlilegt geti talist í svona máli.

Nánar er hægt að lesa um þetta mál á mbl.is. athi@mbl.is