Þetta hálsmen er úr nýjustu línu Unnar Eirar.
Þetta hálsmen er úr nýjustu línu Unnar Eirar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gullsmiðurinn Unnur Eir, sem rekur skartgripamerkið EIR, sendi frá sér nýja línu á dögunum sem kallast Draumar. Marta María | mm@mbl.is

Draumar er ný lína sem er innblásin af þessu klassíska, stílhreina og fínlega en hönnunin fangar síðan eitthvað aðeins villtara. Þegar ég bjó í London sótti ég svolítið í tísku- og pönkstílinn úr menningunni í Camden Town og Shoreditch og þau áhrif fylgja mér aðeins í hönnuninni,“ segir Unnur Eir.

Eyrnalokkar eru uppáhaldsskartgripir Unnar Eirar.

„Ég er mjög hrifin af lokkum og byrja oft ferlið að hanna þá. Út frá lokkunum kemur svo kannski heilsteyptari lína með hálsmeni og armbandi. Það er sérlega skemmtilegt að hanna eigin línu. Ég byrja að skissa skartið upp, sé línuna fæðast. Síðan þarf maður að sjá hvort teikningin af blaðinu og hugsunin geti gengið upp í málmi og orðið að skartgrip. Að þetta fúnkeri allt saman. Oft breytist skartgripurinn í ferlinu; frá því hann verður til á teikniborðinu þar til hann er fullmótaður.“

Unnur Eir lauk meistaranámi í gullsmíði árið 2007 og nam einnig við listaháskólann Central Saint Martins í London. Margir frægir hönnuðir hafa verið í skólanum, m.a. Stella McCartney, sem lærði fatahönnun þar. „Skartgripahönnunin er mjög skemmtilegt og gefandi starf. Svo starfa ég í fjölskyldufyrirtækinu Meba þannig að ég er umvafin skartgripum og hönnun allan daginn,“ segir hún.

Afi Unnar Eirar, Magnús Eðvald Baldvinsson, stofnaði Mebu 1947.

„Foreldrar mínir, Þurý Magnúsdóttir og Björn Árni Ágústsson, fóru síðan að vinna hjá afa. Pabbi fór í úrsmíðanám og foreldrar mínir komu þá meira inn í reksturinn. Þau tóku upphafsstafi afa og pabba, Magnúsar Eðvalds og Björns Árna, í nafn fyrirtækisins.

Fyrirtækið flutti í Kringluna 1987 þegar verslunarmiðstöðin var opnuð og þá varð nafnið Meba til. Þegar Smáralind var opnuð 2001 opnuðum við einnig verslun þar,“ segir Unnur Eir en hún og systir hennar Eva starfa báðar í Meba og eru þriðja kynslóðin sem þar starfar.

Höf.: Unnur Eir