Helga Þóra Bjarnadóttir tók þátt í tískuherferð Gallerí 17 fyrir fermingarnar á þessu ári. Hún segir mikla tilhlökkun ríkja fyrir ferminguna og hlakkar til að skipuleggja sína veislu sjálf. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is
Hvernig er að fermast?

„Mér finnst mjög spennandi að vera að fara að fermast því þá fæ ég að skipuleggja mína eigin veislu sjálf en auðvitað með hjálp foreldra minna.“

Til hvers hlakkar þú mest á fermingardaginn?

„Ég hlakka mikið til að fermast með vinum mínum og vinkonum, síðan er mikil tilhlökkun að halda veisluna og halda upp á ferminguna með fjölskyldu og vinum heima.“

Hvar fermist þú?

„Ég fermist í Garðakirkju í Garðabæ.“

Hvernig verður veislan?

„Veislan verður haldin heima hjá mér með nánustu fjölskyldu og vinum. Þar ætlum við að fagna fermingunni og borða góðan mat og skemmta okkur.“

Hvað langar þig í í fermingargjöf?

„Draumurinn væri að fá fartölvu, svo langar mig mikið í nýja strigaskó.“

Ertu búin að velja þér fermingarföt?

„Já, ég ætla að vera í hvítum samfestingi eða hvítum jakkafötum.“

Verðurðu með skemmtiatriði?

„Nei, ætli ég leyfi ekki fjölskyldu og vinum að sjá um það.“

Ertu trúuð?

„Já, ég fermist í kirkju.“

Eitthvað að lokum?

„Ég vona að allir muni eiga skemmtilegan fermingardag.“