Nýir tímar Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður opnar Hagavagninn á ný.
Nýir tímar Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður opnar Hagavagninn á ný. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er skemmtilegt verkefni, mjög gaman,“ segir veitingamaðurinn Ólafur Örn Ólafsson sem undirbýr nú að opna gamla Hagavagninn við Sundlaug Vesturbæjar að nýju.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er skemmtilegt verkefni, mjög gaman,“ segir veitingamaðurinn Ólafur Örn Ólafsson sem undirbýr nú að opna gamla Hagavagninn við Sundlaug Vesturbæjar að nýju. Búið er að rífa út gamlar innréttingar og tæki og stefnt að því að vagninn verði opnaður í maí. Meðal eigenda eru eigendur Geysisverslananna.

Hagavagninn er eitt af þekktari kennileitum Vesturbæjar Reykjavíkur. Næstum fjórir áratugir eru síðan pylsuvagn var opnaður við Vesturbæjarlaug og fékk hann síðar nafnið Hagavagninn. Hann hefur verið lokaður síðasta árið. Hagavagninn hefur löngum notið vinsælda – enda þykir mörgum nauðsynlegt að fá sér í gogginn eftir góða sundferð. Það er því von að Vesturbæingar fagni þessum tíðindum.

Sífellt meira líf er að færast í þennan hluta Vesturbæjarins. Kaffihús Vesturbæjar var opnað fyrir tæpum fjórum árum hinum megin við Hofsvallagötuna og von er á því að Brauð & co opni þar bakarí á næstunni. Ólafur vill ekki upplýsa nákvæmlega um hvað verði á matseðlinum en játar því að þarna verði áfram seldir hamborgarar. „Þetta er allt á mjög miklu byrjunarstigi,“ segir Ólafur sem hefur lagst í miklar rannsóknir á hamborgurum að undanförnu.

„Ég er að vinna með bakara að því að finna rétta brauðið og er að gera tilraunir með kjötið. Það þarf að finna út hvaða hlutar eru bestir í hakkið. Svo stefni ég á að fara upp á næsta stig í að gera djúsí grænmetisborgara,“ segir Ólafur, sem þekktur er fyrir framgöngu sína í matreiðsluþáttum í sjónvarpi en hefur komið að opnun og rekstri fjölda veitingastaða, svo sem Dills, auk þess að stjórna matarmarkaðinum Krás.