Hugur minn hefur reikað aftur í tímann við gerð þessa fermingarblaðs. Einhvern veginn fannst mér ég vera ákaflega þroskuð þegar ég var 14 ára en ég hallast meira og meira að því að það hafi mögulega verið á misskilningi byggt.

Hugur minn hefur reikað aftur í tímann við gerð þessa fermingarblaðs. Einhvern veginn fannst mér ég vera ákaflega þroskuð þegar ég var 14 ára en ég hallast meira og meira að því að það hafi mögulega verið á misskilningi byggt.

Heimsmyndin var ekki víðari en svo að ég ímyndaði mér að ef ég myndi eignast flottar steríógræjur og töff kærasta þá yrði lífið svo gott sem fullkomið.

Ef ég hefði vitað þarna 14 ára að hinn ofursvali kærasti myndi ekki birtast fyrr en ég væri um fertugt þá hefði ég líklega bara gefist upp á lífinu, en það er nú önnur saga.

Kærastaleysið gleymdist um hríð á meðan gleðin yfir fermingargjöfunum stóð sem hæst. Þessar Pioneer-græjur sem ég fékk voru náttúrulega himnasending með geislaspilara og tvöföldu segulbandstæki. Á þeim var líka tímastillir sem gerði það að verkum að maður gat látið þær slökkva á sér eftir ákveðinn tíma. Á þessum tíma hafði maður alla sína vitneskju um fullorðinslíf í gegnum kvöldsögur Eiríks Jónssonar, en í þáttinn hringdi inn fólk og sagði frá sínum dýpstu leyndarmálum.

Á milli þess sem þessi 14 ára gamla ég hlustaði á Eirík Jónsson fór í skólann og vann hörðum höndum að því að eignast kærasta stalst ég til að reykja bak við kirkjuna sem ég fermdist í. Á meðan við vinkonurnar soguðum að okkur fjallaloft lögðum við grunn að framtíðinni. Ég hafði töluverða drauma um að verða rík og fræg en ég vissi bara ekki alveg hvernig ég ætlaði að fara að því.

Ég fékk fleira en græjur í fermingargjöf. Ef mig misminnir ekki fékk ég um 70.000 krónur í peningum, sem þótti ekki sérlega mikið. En ég fékk skartgripi og fínar bækur sem nýst hafa vel í leik og starfi síðar á lífsleiðinni. Á þessum árum var ég svo mikill lúði að ég hafði ekki hugmyndaflug í að eyða þessum 70.000 krónum í neitt gáfulegt. Mig minnir að þessi peningur hafi um 17 ára aldur farið upp í bláa Toyotu Corollu sem síðar fór upp í splunkunýjan Wolksvagen Golf 1997 módel sem síðan var seldur til að fjármagna kaup á fyrstu íbúð.

Allt hljómar þetta eins og þetta hafi ekki verið neitt mál en auðvitað var þetta stórmál. Það er erfitt að eignast sitt fyrsta húsnæði og vel á minnst, ég gerði ekki mikið annað á meðan. Það er að segja, ég fór ekki í útskriftarferð þegar ég kláraði stúdentinn því ég átti ekki pening, ég fór heldur ekki í heimsreisu og ég keypti ekki rándýr föt heldur saumaði flest mín föt sjálf. Ég átti ekki rándýrar merkjavörutöskur og ég lifði ekki eins og greifi. Ég var bara skítblönk og þurfti að telja hverja einustu krónu því annars hefði þetta ekki gengið upp. Ég vann líka á tveimur stöðum til að eiga fyrir afborgunum, mat, hreinsiefnum og hússjóði.

Þegar ég hugsa til baka minnist ég þess ekki að líf mitt hafi verið ömurlegt heldur var ég að springa úr hamingju að hafa eignast þak yfir höfuðið rétt skriðin yfir tvítugt. Þetta efldi mig og veitti mér meira sjálfstraust.

Ef ég ætti að ráðleggja fermingarbarni í dag þá væri það að leggja fermingarpeningana til hliðar og safna sér fyrir íbúð. Þótt það sé freistandi að eignast nýjasta símann eða flottustu fötin kemur alltaf að þeim tímapunkti að maður þarf að búa einhvers staðar. Því miður gerist ekkert í lífinu af sjálfu sér og við þurfum að hafa fyrir hlutunum. Eða þannig er það alla vega hjá venjulegu fólki með venjulega drauma og þrár.