Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 38,7 milljarða króna árið 2017 eða 1,5% af landsframleiðslu.

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 38,7 milljarða króna árið 2017 eða 1,5% af landsframleiðslu. Til samanburðar var afkoman jákvæð um 308,4 milljarða króna árið 2016 eða 12,6% af landsframleiðslu og neikvæð um 18,2 milljarða króna árið 2015, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni.

Tekjur hins opinbera námu um 1.109,6 milljörðum árið 2017 eða 43,4% af landsframleiðslu. Drógust tekjurnar saman um 22% milli ára, sem rekja má til 384,2 milljarða króna stöðugleikaframlags frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja árið 2016.

Útgjöld hins opinbera voru 1.070,9 milljarðar króna 2017 eða sem nemur 41,9% af landsframleiðslu en til samanburðar námu útgjöldin 45,2% af landsframleiðslu árið 2016.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála árið 2017 eru áætluð 223,7 milljarðar króna eða 8,8% af landsframleiðslu.