Ingibjörg Matthildur Guðrún Magnúsdóttir fæddist 27. ágúst 1938. Hún lést 12. febrúar 2018.

Útför Ingibjargar fór fram 22. febrúar 2018.

Hún Inga vinkona mín lést hinn 12. febrúar á Hrafnistu í Reykjavík. Mig langar að minnast hennar með örfáum orðum. Við kynntumst fyrst 16 og 17 ára gamlar þegar við unnum saman á Hótel Vík árið 1956. Þar nutum við þess að vera ungar og kátar stúlkur og unnum saman í u.þ.b. ár. Eftir það skildi leiðir okkar í 17 ár eða þar til við fluttum báðar í sama stigagang í Írabakka í Breiðholti. Þá vorum við báðar giftar konur og báðar eignuðumst við sjö börn. Þar endurnýjuðum við kynnin og oft var glatt á hjalla þegar við hittumst í kaffi og sígó hvor hjá annarri. Mikill samgangur var á milli hæða og voru börnin okkar á ferð upp og niður stigana í leik og vináttu. Síðan uppgötvaðist það að maður Ingu, hann Halldór, var skyldur mér og ekki dró það úr vináttunni. Seinna fluttu Inga og Halldór í Hólahverfið og þangað heimsótti ég þau alla tíð. Síðan fluttu þau í Vesturberg og að síðustu á Hrafnistu og þangað heimsóttum við hjónin þau einnig. Inga var alltaf jákvæð og hlý og gott að koma til hennar. Rúmri viku áður en hún lést hittumst við í hinsta sinn og þótti mér vænt um að hitta hana þá. Ég mun sakna hennar ætíð. Fjölskyldu hennar votta ég samúð mína og var gott að hitta þau öll í jarðarförinni og rifja upp gamlar minningar. Megi Guð fylgja ykkur um ókomna tíð.

Svanhildur G. Jónsdóttir.