Ólafur Hjálmarsson
Ólafur Hjálmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ólaf Hjálmarsson og Lárus Guðmundsson: "Það er veruleg skerðing á lífsgæðum að njóta ekki nægs nætursvefns eins og þeir þekkja sem reynt hafa. Heilsan er í húfi."

Maðurinn ver um þriðjungi ævi sinnar í að sofa. Tilgangur með svefni er ekki fullþekktur, en í stuttu máli er hægt að segja að svefn endurnæri heilann og geri honum kleift að styrkja mikilvægar taugabrautir og tengingar sem myndast að degi til og snyrta og klippa á tengingar sem ekki teljast mikilvægar. Það er ljóst að á þeim árþúsundum sem maðurinn hefur verið að þróast hefur hann verið auðveld bráð á meðan hann sefur. En svefn er engu síður það mikilvægur og lífsnauðsynlegur að náttúruval hefur ekki valdið því að svefnþörf mannsins hafi horfið.

Heyrnin er það skynfæri okkar sem aldrei sefur og má segja að heyrnin sé viðvörunarkerfi okkar bæði í vöku og svefni. Umhverfishávaði frá t.d. frá bifreiðum og flugvélum veldur umtalsverðum truflunum á svefni. Hávaði getur táknað aðsteðjandi hættu og veldur því að heilinn sendir streituhormón út í blóðrásina; bæði adrenalín og noradrenalín; býr líkamann undir átök. Faraldsfræðirannsóknir (hóprannsóknir) hafa sýnt að umhverfishávaði tengist aukinni tíðni háþrýstings, kransæðastíflu og heilablóðfalls. Þá benda rannsóknir einnig til að ónæði af völdum hávaða sem fólk telur sig ekki hafa stjórn á getur til langframa aukið líkur á kvíða og þunglyndi.

Samfélag okkar hefur tekið miklum breytingum á síðustu árhundruðum en heyrn sem viðvörunarkerfi líkamans þróaðist á mörg þúsund árum. Það mun taka langan tíma fyrir kerfið að aðlagast nútímasamfélagi. Það sem áður var lífsnauðsynlegt viðbragð er í dag meira í ætt við platútkall vegna „aðsteðjandi hættu“ sem ekki er lengur til staðar en veldur aukinni streitu í líkamanum og í sumum tilfellum þrálátu streituástandi.

Margir íbúar í borgum búa nálægt umferðaræðum þar sem umferð er langt fram á kvöld og jafnvel að nóttu til. Dæmi eru um að fólk sem býr við umferðaræðar og hefur átt í vandræðum með að sofa hafi ráðist í að kaupa nýtt rúm til þess að bæta svefn. Nýja rúmið leysti ekki svefnvandann. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að næturhávaði frá nærliggjandi stofnbraut umferðar var sökudólgurinn. Fólk vill gjarnan sofa við opinn glugga til þess að tryggja ferskt loft á meðan sofið er. Í slíkum tilvikum er hins vegar nauðsynlegt að finna aðrar lausnir sem tryggja aðkomu fersks lofts án þess að hleypa hávaðanum inn í svefnherbergið þar sem sofið er.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur um langa hríð verið að benda á hættuna sem fylgir of miklum hávaða fyrir svefn, heilsu og lífsgæði. Börn og eldra fólk eru í sérstakri hættu vegna hávaðamengunar. Árið 2009 gaf stofunun út viðamikið rit, Night Noise Guidlines for Europe. Ritið má finna með leitarvél á netinu undir slóðinni:

www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0017/43316/E92845.pdf

Það er vonandi að sem flestir lesendur þessa greinarkorns hafi tök á því að kynna sér ritið og þar með alvöru málsins fyrir lýðheilsu hér á landi. Við erum víða hátt yfir æskilegum hávaðamörkum í íbúðabyggð hér á landi, sérstaklega við stofnæðar umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Áhrif langvarandi svefnleysis má sjá í töflunni hér að neðan úr ofanskráðri heimild.

Árið 2002 gaf Evrópusambandið út tilskipum um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir í aðildarríkjum til þess að sporna við stigvaxandi hávaða í umhverfinu; sem víða er kominn langt yfir bærileg mörk. Ákvæði voru um upplýsingaskyldu gagnvart almenningi. Gildandi hávaðakort við helstu stofnbrautir hér á landi eru birt á vef Umhverfisstofnunar undir slóðinni: http://ust.is/einstaklingar/umhverfi-og-heilsa/havadi

Hér með hvetja greinarhöfundar lesendur sem búa í háværu umhverfi til þess að kanna hljóðstig við íbúðir sínar á nefndum hávaðakortum og bera saman við æskileg mörk í fyrrgreindu upplýsingariti Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Sjálfsagt og eðlilegt er að leita aðstoðar og réttar síns eftir því sem við á hjá viðkomandi sveitarfélagi ef hávaði er yfir æskilegum mörkum. Reynslan hefur margsýnt að framfarir hér á landi verða ekki án virkrar þátttöku almennings. Þetta snýst um heilsu okkar allra. Það er veruleg skerðing á lífsgæðum að njóta ekki nægs nætursvefns eins og þeir þekkja sem reynt hafa. Heilsan er í húfi.

Ólafur er verkfræðingur og Lárus er faraldsfræðingur.