Ekkert núll Christopher Woods skoraði 27 stig fyrir Blika gegn Vestra í gær og tók 10 fráköst.
Ekkert núll Christopher Woods skoraði 27 stig fyrir Blika gegn Vestra í gær og tók 10 fráköst. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Breiðablik tók í gær forystuna í undanúrslitarimmu sinni við Vestra í 1. deild karla í körfubolta. Blikar fögnuðu sigri á heimavelli í gær, 93:64, en liðin mætast að nýju á Ísafirði á sunnudag.

Breiðablik tók í gær forystuna í undanúrslitarimmu sinni við Vestra í 1. deild karla í körfubolta. Blikar fögnuðu sigri á heimavelli í gær, 93:64, en liðin mætast að nýju á Ísafirði á sunnudag. Þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið við Hamar eða Snæfell um hvaða lið fylgir Skallagrími upp í úrvalsdeildina.

Blikar náðu strax frumkvæðinu í gær, voru 22:15 yfir eftir 1. leikhluta og komust 23 stigum yfir fyrir hálfleik, 53:30. Gestunum frá Ísafirði gekk illa að sækja gegn Blikavörninni og enn munaði 22 stigum fyrir lokafjórðunginn, 68:46, og úrslitin svo gott sem ráðin.

Christopher Woods var atkvæðamestur Blika með 27 stig og 10 fráköst, þrátt fyrir að spila aðeins 24 mínútur. Ingimar Aron Baldursson skoraði mest fyrir Vestra eða 23 stig.

Hamar, sem endaði í öðru sæti deildarinnar, og Snæfell, sem hafnaði í fimmta sæti, mætast í fyrsta leik sínum í undanúrslitunum í Hveragerði í kvöld. sindris@mbl.is