Þröng Bílastæði er ekki stórt og því er bílum oft lagt nánast úti á fjölförnum vegi. Slíkt skapar slysahættu og því eru framkvæmdir nauðsynlegar.
Þröng Bílastæði er ekki stórt og því er bílum oft lagt nánast úti á fjölförnum vegi. Slíkt skapar slysahættu og því eru framkvæmdir nauðsynlegar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Sótt hefur verið um fjárframlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til Grundarfjarðarbæjar til þess að gera nýtt bílastæði, aðstöðu og lagfæra og útbúa göngustíga við Kirkjufellsfoss í Grundarfirði.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sótt hefur verið um fjárframlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til Grundarfjarðarbæjar til þess að gera nýtt bílastæði, aðstöðu og lagfæra og útbúa göngustíga við Kirkjufellsfoss í Grundarfirði. Fossinn er rétt vestan við byggðarlagið og hefur á síðustu árum orðið mjög fjölsóttur og vinsæll staður meðal ferðamanna. Ræður þar að frá fossinum er í beinni sjónlínu að hinu formfagra Kirkjufelli og vinsælt að taka ljósmyndir af þessu tvennu saman.

Hættuástand skapast

Á góðum degi koma hundruð ferðamanna að fossinum og leggja þeir þá bílum sínum stórum og smáum annaðhvort á stæði sem eru orðin alltof lítil eða þá í kanti þjóðvegarins sem mikil umferð er um. Í umferðarteppum skapast hættuástand á þjóðveginum, segir Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri í Grundafirði, í samtali við Morgunblaðið.

Svo háttar til að ef komið er úr vestri, það er frá Ólafsvík, er fossinn nokkurn spöl sunnan við háa brekku sem ekið er niður. Þar á jafnsléttunni er bílastæðið við vegbrún og oft er fólk á stjákli þar í kring. Hættan sem þá er blasir við. Útbúin hefur verið tillaga að deiliskipulagi við fossinn, þar sem gert er ráð fyrir nýju bílastæði sem verður nokkru ofar og vestar en nú er. Frá stæðinu myndi svo liggja stígur um lága brekku niður að fossinum. Tillagan fer í auglýsingu næstu daga eftir umfjöllun hjá skipulags- og umhverfisnefnd Grundarfjarðarbæjar.

Tillaga þessi er unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Alta ehf. og í samráði við eigendur jarðarinnar Kirkjufells svo og Vegagerðina.

Á konfektkössum og samfélagsmiðlum

Þorsteinn Steinsson vonast til að samstaða náist um málið, svo og að styrkur fáist úr fyrrnefndum ferðamannasjóði, þannig að hægt verði að koma framkvæmdinni vel af stað.

Myndir af fossinum og fjallinu í einni sjónlínu hafa ratað víða um veröldina.

„Þessar myndir sjást í erlendum fjölmiðlum, í Leifsstöð, á konfektkössum, á samfélagsmiðlum og víðar. Þetta er fallegt sjónarhorn sem fangar auga ferðamanna sem koma alls staðar að úr heiminum. Í raun var þetta alveg óvænt en hefur líka komið Snæfellsnesinu vel á kortið sem viðkomustað ferðamanna, enda byggist atvinnulíf hér um slóðir eins og víðar mikið á ferðaþjónustunni,“ segir bæjarstjórinn.