Hestöfl Önnur vindrafstöðin í Þykkvabæ snýst og framleiðir orku fyrir kartöfluverksmiðjuna í sveitaþorpinu sem þekktast er fyrir kartöflurækt.
Hestöfl Önnur vindrafstöðin í Þykkvabæ snýst og framleiðir orku fyrir kartöfluverksmiðjuna í sveitaþorpinu sem þekktast er fyrir kartöflurækt. — Morgunblaðið/RAX
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur hafnað því að Biokraft fái heimild til að reisa tvær vindrafstöðvar í Þykkvabæ, í stað tveggja eldri og minni vindmyllna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur hafnað því að Biokraft fái heimild til að reisa tvær vindrafstöðvar í Þykkvabæ, í stað tveggja eldri og minni vindmyllna. Lögmaður Biokraft telur að ýmislegt í meðferð skipulags- og umferðarnefndar sveitarfélagsins sé ólögmætt og er eigandi Biokraft að íhuga framhald málsins. Til greina kemur að vísa málinu til úrskurðarnefndar eða höfða mál fyrir dómstólum.

Eftir að önnur vindrafstöð Biokraft eyðilagðist í bruna á síðasta ári óskaði eigandi fyrirtækisins eftir því að fá að endurnýja báðar myllurnar vegna þess að þær gömlu væru úreltar og ekki lengur hægt að fá slíka myllu keypta. Uppfærð útgáfa er heldur hærri, í samræmi við þróunina í nýtingu vindorkunnar. Eigandi Biokraft telur að sveitarfélagið hafi tekið vel í óskir hans um að endurnýja vindrafstöðvarnar. Hámarkshæð vindmyllnanna í Þykkvabæ er bundin í deiliskipulagi og þurfti því að breyta skipulagi samkvæmt ábendingu skipulagsfulltrúa. Biokraft lét vinna nýtt deiliskipulag og sveitarstjórn samþykkti að auglýsa það.

Viðhorf íbúa breyst

Við meðferð málsins barst ein athugasemd frá landeiganda í Þykkvabæ. Einnig var lögð fram athugasemd í formi undirskriftalista sem 61 skrifaði undir. Lögmaður Biokraft taldi ekki mark takandi á þessum athugasemdum vegna rangfærslna sem fram kæmu í þeim.

Skipulags- og umferðarnefnd lagðist hins vegar gegn þessari deiliskipulagsbreytingu þegar málið kom til kasta hennar eftir auglýsingu. Hún fjallaði tvisvar um málið og lagði jafnoft til að skipulaginu yrði hafnað. Sveitarstjórn staðfesti þá niðurstöðu á fundi í fyrradag.

Þorgils Torfi Jónsson, formaður skipulagsnefndar og oddviti sveitarstjórnar, segir að vilji íbúanna ráði mestu um niðurstöðu sveitarstjórnar. Þeir vilji ekki stærri vindmyllur.

Þorgils Torfi segir að í upphafi, þegar vindmyllurnar komu fyrst, hafi fólk verið spennt fyrir þeim og áhugasamt um að prófa þessa nýju orkuöflunarleið. Viðhorf fólks hafi breyst með tímanum. Það vilji gæta sín enda ekki aftur tekið í hvelli það sem gert er. Þá hafi vaxandi ferðaþjónusta einhver áhrif á viðhorf fólks. Margir telji að þetta tvennt fari ekki vel saman.

Þær nýju yrðu öruggari

Í bókun fundar sveitarstjórnar er áréttað að heimilt sé að endurnýja vindmyllurnar innan ramma núverandi deiliskipulags. Nýju vindrafstöðvarnar sem Biokraft hefur keypt, eða tryggt sér, úti í Danmörku passa hins vegar ekki inn í skipulagið.

Hjalti Steinþórsson, lögmaður Biokraft, leggur áherslu á að heimilt sé að vera með vindmyllur á umræddri lóð. Fyrirtækið fái ekki tjón sitt bætt úr tryggingum nema byggja nýja vindmyllu í stað þeirrar sem eyðilagðist. Munurinn á nýju myllunum og þeim gömlu sé hverfandi. Þær hafi þá kosti að vera öruggari í rekstri og gagnvart umhverfinu, þær hafi minni hljóðvist og snúist hægar og því séu minni líkur séu á því að fuglar lendi í spöðunum. Vissulega séu þær 9% hærri en sá munur sé ekki áberandi, hvorki úr nálægð né fjarska.

Hjalti tekur fram að eigandi Biokraft hafi ekki ákveðið framhaldið. Hann segir að til greina komi að kæra niðurstöðu sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eða höfða mál fyrir dómstólum. Í báðum tilvikum yrði gerð krafa um ógildingu ákvörðunar. Dómstólaleiðin hafi þann kost að taka skemmri tíma og telur Hjalti að í því máli væri jafnframt unnt að fara fram á viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna tjóns sem fyrirtækið hafi orðið og verði fyrir vegna þess dráttar sem orðið hefur á að það fái leyfi til að reisa nýjar vindmyllur.