Hallmundur Guðmundsson yrkir „Hor-titt“ á Boðnarmiði: Eftir þrot og þrálátt kvef mér þykir vera ljóst að næsta víst að nú ég hef nægjanlega hóstað.

Hallmundur Guðmundsson yrkir „Hor-titt“ á Boðnarmiði:

Eftir þrot og þrálátt kvef

mér þykir vera ljóst að

næsta víst að nú ég hef

nægjanlega hóstað.

Þessi staka Magnúsar Halldórssonar átti eftir að draga dilk á eftir sér:

Víkur undan veturinn

við mér teiknin blasa

og í lofti aukast finn,

angan dauðra grasa

Magnús Geir Guðmundsson svaraði:

Víkur eigi veturinn

víst á norðurhjara.

Efalítið enn um sinn,

ískaldur mun vara.

Bjarni Þorkelsson hafði eftir „angan dauðra grasa“. Öllu má nú nafn gefa:

Skrifast hér í skaflinn strik

skugginn víkur svali.

Engan verri finn ég fnyk

en fýluna af kali.

Og Jón Atli Játvarðarson:

Á næg sprek í aflinum.

Engum þrautum kvíði.

þótt skríði nú úr skaflinum

skökkust birna úr hýði.

„Tóm gleði,“ – vel get ég tekið undir með Árnmanni Þorgrímssyni þegar hann yrkir:

Aldur hækkar, orkan dvín

eitthvað þyngist straumur

ennþá samt er ævi mín

eins og ljúfur draumur.

Stundum ratast kjöftugum satt á munn og stundum ekki. Magnús Geir Guðmundsson skrifar:„Það eru nú ekki ný sannindi að alls kyns pennar og mis vel upplagðir ríða húsum víða á FB. Þetta litla vísutetur mótaðist eftir að hafa skoðað einn ágætlega „kenndan“ þráð og heldur dapran:

Stöðvum árans „stútadraf“!

Stíflum!

Á Fésbókinni fullnóg af,

fíflum!“

Baldur á Ófeigsstöðum orti um sveitunga sinn:

Náttfara ei nóttin brást,

næturdísir fagna,

dreymdi fyrstu æskuást

Íslendingasagna.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is