Frumraun Leikmenn RB Salzburg fagna því að hafa slegið Dortmund út og komist í 8-liða úrslit. Aldrei fyrr hefur austurrískt lið náð svo langt.
Frumraun Leikmenn RB Salzburg fagna því að hafa slegið Dortmund út og komist í 8-liða úrslit. Aldrei fyrr hefur austurrískt lið náð svo langt. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópudeild Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Arsenal vann einvígi sitt við AC Milan samtals 5:1 og kom sér þannig í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gær.

Evrópudeild

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Arsenal vann einvígi sitt við AC Milan samtals 5:1 og kom sér þannig í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gær. Arsenal var með vænlega stöðu eftir fyrri leik liðanna, 2:0-útisigur, en lenti undir í fyrri hálfleik í gær. Danny Welbeck jafnaði metin eftir afar strangan, eða rangan, vítaspyrnudóm, og þeir Granit Xhaka og Welbeck bættu við mörkum í seinni hálfleiknum.

„Við þurftum á þessu að halda. Við gáfum tóninn í síðustu viku í Mílanó. Þetta snerist bara um að klára þetta eins og fagmenn í kvöld. Við byrjuðum þó ekki vel en það vakti okkur. Við hefðum kannski ekki valið að mæta AC Milan en við sýndum að við getum haft betur gegn toppliðum í Evrópu,“ sagði Jack Wilshere, leikmaður Arsenal.

Dregið verður í 8-liða úrslit í hádeginu í dag og þar verða fulltrúar átta ólíkra landa, en ásamt Arsenal verða í skálinni lið Atlético Madrid frá Spáni, Marseille frá Frakklandi, Lazio frá Ítalíu, Sporting Lissabon frá Portúgal, RB Leipzig frá Þýskalandi, CSKA Moskva frá Rússlandi og RB Salzburg frá Austurríki.

Salzburg varð fyrsta austurríska liðið til að komast í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar, með því að slá út Dortmund, lið sem talið var sigurstranglegt í keppninni. Salzburg hafði unnið 2:1-útisigur í fyrri leik liðanna og því dugði markalausa jafnteflið í gær liðinu til að komast áfram. Önnur óvænt úrslit urðu í Frakklandi þar sem Lyon féll úr leik eftir 3:2-tap gegn CSKA Moskvu, en Lyon hafði unnið 1:0 í Rússlandi.

Atlético Madrid slátraði Lokomotiv Moskvu 5:1 í Rússlandi, eftir að hafa unnið 3:0-sigur á heimavelli. Fernando Torres skoraði tvö mörk.