Guðbjörg Snót Jónsdóttir
Guðbjörg Snót Jónsdóttir
Eftir Guðbjörgu Snót Jónsdóttur: "Flugvöllur í Vatnsmýri er nauðsynlegur þar sem hann er í nágrenni við sjúkrahúsið og aðra þjónustu."

Framsóknarflokkarnir tveir eru hvor með sína stefnuna í þessum málum. Hinn aldargamli flokkur vill hafa flugvöllinn í Hvassahrauni, þar sem vel að merkja er vatnsverndarsvæði að sögn og flestum þyki það ekki koma til greina af ýmsum öðrum ástæðum. Miðflokkurinn vill háskólasjúkrahúsið burt af Hringbrautinni og suður í Vífilsstaðaland. Skoðum þetta aðeins nánar.

Ef Landspítalinn á að fara þangað suðureftir, þá er dagljóst, að hann getur ekki gegnt stöðu háskólasjúkrahúss. Það liggur í augum uppi, nema ætlun Miðflokksins sé, að háskólinn fari þangað suðureftir líka burt úr Vatnsmýrinni, því að hvar sem ég hef komið í borgir, þá eru háskólasjúkrahús vanalegast í göngufæri og nágrenni við háskólana, ef þau eru ekki beinlínis inni á háskólalóðunum. Það er því augljóst, að háskólasjúkrahús verður að vera á þeim stað, þar sem það er nú, ef Landsspítalanum er ætlað að þjóna sem slíku samtímis því að vera ríkisspítali þjóðarinnar. Annað væri gjörsamlega út í hött. Það segir sig sjálft.

Reykjavíkurflugvöllur verður líka að vera til staðar þar sem hann er, sjúkrahússins vegna, og þjóna sem sjúkraflugvöllur í nágrenni sjúkrahússins, ef ekki vill annað, því að það er bráðnauðsynlegt að hafa flugvöll í næsta nágrenni sjúkrahússins eða hafa flugbrautir þar nálægt, svo að hægt sé að flytja sjúklinga utan af landi sem allra fyrst á sjúkrahúsið, enda um mannslíf að tefla þar. Því vona ég, að hæstvirtur samgönguráðherra, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins, afskrifi ekki Reykjavíkurflugvöll með öllu vegna þess, enda á hann sem utanbæjarmaður að gera sér grein fyrir þýðingu Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni fyrir sjúkrahúsið í nágrenninu og nauðsynjar hans fyrir sjúkraflutninga utan af landi, þegar um mannslíf er að tefla, og láta helst norðvesturbrautina eða svokallaða neyðarbraut standa opna á veturna, – það er að segja, ef hann er ekki sammála Miðflokksfólki um, að sjúkrahúsið eigi að vera suður í Vífilsstaðalandi, og afnema það þá sem háskólasjúkrahús. Það er samt bráðnauðsynlegt, að hvort tveggja sé á þeim stað, sem þau eru nú, eins og allir eiga að vita, enda er vitað mál, að meirihluti þjóðarinnar vill það. Hvað Miðflokkurinn vill svo gera í þessu máli, hefur ekki komið fram ennþá, enda lítið um það talað. Nema þeir vilji flytja hvort tveggja, spítalann og flugvöllinn, á sama stað, en þá verður háskólinn að fara sömu leið, eins og ég gat um hér að ofan.

Framsóknarflokkurinn getur tæplega haft flugvallarvini inni í nafni sínu, ef stefna hans er orðin sú að koma flugvellinum burt úr Vatnsmýrinni, þar sem allir sannir vinir flugvallarins, hvort sem þeir eru innan eða utan samtakanna, sem kenna sig við hann, vilja hafa hann þar sem hann er og hefur verið í 75 ár, nálægt sjúkrahúsinu, enda hefur hann ekki truflað neinn í nágrenninu til þessa mér vitanlega. Ég hef áður minnst á, að maður tók varla eftir flugvélahávaðanum, þegar ég var í háskólanum, og aðrir nágrannar hafa ekki kvartað enn mér vitanlega, enda hafa menn lifað við flugvélahávaðann til þessa og litið á hann sem hvern annan umhverfishávaða. Það má líka segja, að öllu megi venjast, svo gott þyki, eða eins og sungið var hér einu sinni: „Það er vont, en það venst.“ Mér persónulega fyndist eitthvað vanta, ef flugvöllurinn væri ekki þarna, og svo er um fleiri, veit ég. Ef til þess er svo ætlast, að verndarsvæði fugla sé á þessum stað líka, þá færi betur, að flugvöllurinn sé þar sem hann er, heldur en að fjölmennri íbúabyggð sé hrófað þar niður í mýrarfenið. Það gefur að skilja.

Flugvöllur í Vatnsmýri er nauðsynlegur þar sem hann er í nágrenni við sjúkrahúsið og aðra þjónustu, og háskólasjúkrahús getur hvergi annars staðar verið en nálægt háskólanum. Svo einfalt er það mál. Það er því útilokað fyrir framsóknarflokkana tvo að bjóða upp á aðra kosti í þessum efnum. Því miður.

Höfundur er guðfræðingur og fræðimaður.

Höf.: Guðbjörgu Snót Jónsdóttur