Eins og fram kom í umfjöllun í Morgunblaðinu í gær er háttvirtur þingmaður, Björn Leví Gunnarsson, gersamlega búinn að stinga keppinauta sína af í kapphlaupinu um flestar fyrirspurnir í þinginu. Yfirburðir Björns eru miklir.

Eins og fram kom í umfjöllun í Morgunblaðinu í gær er háttvirtur þingmaður, Björn Leví Gunnarsson, gersamlega búinn að stinga keppinauta sína af í kapphlaupinu um flestar fyrirspurnir í þinginu.

Yfirburðir Björns eru miklir. Hann hefur á yfirstandandi þingi lagt fram sjötíu og tvær fyrirspurnir til ráðherra og forseta Alþingis og mun það vera fjórðungur allra fyrirspurna á þessu þingi. Þorsteinn Sæmundsson hefur af veikum mætti reynt að halda spennu í keppninni en sautján fyrirspurnir hans hrökkva skammt því Björn er í feiknaformi.

Frammistaða Björns er aðdáunarverð fyrir margra hluta sakir eins og væntanlega allir sjá. Ekki síst vegna þess að hinar árlegu alþingiskosningar okkar Íslendinga fóru nú síðast fram með litlum fyrirvara í lok október. Björn fékk því ekki hefðbundið undirbúningstímabil til að hlaupa og lyfta lóðum með það fyrir augum að auka úthald og styrk fyrir allan þennan hamagang. Hefði hann náð eðlilegu undirbúningstímabili þá væri fróðlegt að vita hversu margar fyrirspurnirnar væru orðnar.

Háttvirtum þingmanni er ekkert mannlegt óviðkomandi að því er virðist. Fjölbreytnin og skemmtilegheitin í fyrirspurnum hans eru mergjuð. Ekki telur Víkverji þó að á önnur hugðarefni Björns sé hallað þótt sérstaklega sé vakin athygli á skemmtanagildi fyrirspurnar á þingskjali 372-270. Þar er fyrsta spurningin eftirfarandi: „1) Hvert er opinbert nafn sveitarfélagsins þar sem höfuðborg Íslands er staðsett?“

Fulltrúar framkvæmdavaldsins hafa ekki séð sóma sinn í því að varpa ljósi á þetta óljósa atriði og leiða þingmanninn og okkur aðdáendur hans út úr myrkrinu og inn í birtu þekkingarinnar. Varla getur dregist út vikuna þessari aðkallandi spurningu verði svarað.