Edda Möller búðarkona í Kirkjuhúsinu er hér til hægri ásamt samstarfskonu sinni Guðbjörgu Ingólfsdóttur.
Edda Möller búðarkona í Kirkjuhúsinu er hér til hægri ásamt samstarfskonu sinni Guðbjörgu Ingólfsdóttur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Edda Möller er engin venjuleg búðarkona. Hún selur kærleiksríkar vörur úr Kirkjuhúsinu af mikilli visku og alúð. Hún segir þá sem versla í Kirkjuhúsinu koma þangað á mismunandi forsendum.
Edda Möller er engin venjuleg búðarkona. Hún selur kærleiksríkar vörur úr Kirkjuhúsinu af mikilli visku og alúð. Hún segir þá sem versla í Kirkjuhúsinu koma þangað á mismunandi forsendum. Sumir séu að fagna áfanga líkt og fermingu og skírn, aðrir séu að leita sér að næringu fyrir sálina eftir sorg eða fallegum orðum inn í daginn. Hér ræðir hún áhugaverða hluti fyrir fermingarbarnið að eiga. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Aðspurð hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir hún: „Það koma margir í Kirkjuhúsið. Að hitta fólkið er skemmtilegast við vinnuna. Fólk sem kemur bæði í gleði og sorg. Ég kann að meta hvað fólk er tilbúið að opna hjarta sitt, staldra við og ræða málin. Samtal um lífið og tilveruna er daglegt brauð hér. Við gefum okkur góðan tíma með fólki fyrir bæði gleði og sorg.

Sálmabókin mikilvæg

Ég kann mikið að meta hvað fólk er tilbúið að koma hingað og opna hjarta sitt, staldra við og ræða málin. Ég trúi því að það sem við erum að gera hér skipti máli fyrir aðra. Hvort heldur sem er að finna tilgang lífsins með fólki í meðbyr eða mótbyr.“

Edda segir að vinsælasti hluturinn í Kirkjuhúsinu þegar kemur að fermingunni sé sálmabókin. „Við hvetjum foreldra fermingarbarna til að halda í þann fallega sið að fermingarbarnið eigi sálmabók sem fylgir því í gegnum lífið. Sálmabókin er ekki bara söngbók heldur líka bænabók. Hægt er að merkja bókina með gyllingu að framan.“

Hvað er fleira vinsælt í Kirkjuhúsinu fyrir fermingar?

„Biblían er vinsæl fermingargjöf en við seljum einnig fermingarkerti og gestabækur sem foreldrarnir kaupa hjá okkur fyrir veisluna. Gestabókin er líka minningabók um fermingardaginn, en í henni má geyma kort og myndir frá viðburðinum.“

Í Kirkjuhúsinu fást bækur og tónlist fyrir börn og fullorðna en einnig falleg gjafavara á kristnum grunni. „Já, við erum einnig með krossa til að bera sem hálsmen og svo eru Willow Tree-stytturnar okkar vinsælar. Þær tjá tilfinningar á borð við gleði, vináttu og þakklæti.“

Sölt og sæt orð inn í daginn

Fimm mínútna biblían er einnig áhugaverður kostur fyrir unga fólkið. „Í henni er ein síða fyrir hvern dag ársins. Fjársjóður eru lítil spil sem þú dregur á hverjum degi og hugleiðir yfir daginn. Að mínu mati stendur þessi vara undir nafni og er eins konar brú á milli almennings og kristinnar trúar inn í daginn.“

Salt og hunang er bók sem auðvelt er að reka augun í þegar maður kemur inn í verslunina og hefur hún fengið mikið lof lesenda að undanförnu. „Já, Salt og hunang er góð bók til að gefa fermingarbarninu. Hún er hugleiðing fyrir hvern dag ársins, í raun íhuganir út frá 365 versum í Biblíunni, ein fyrir hvern dag ársins. Orðin, sem ýmist eru sölt eða sæt, skilja eftir mikinn eftirkeim hjá lesandanum og það hefur vakið áhuga fólks víða á bókinni.“

Edda segir fermingarbörn mjög áhugasöm um það sem er í boði í Kirkjuhúsinu, ekki síst stúlkurnar, þótt hún sé ekki viss um að það passi að koma því áleiðis í svona viðtali. „Þau hafa gert sér grein fyrir því í langan tíma að það komi að þeim að fermast, þau sjálf eru miðpunktur þessa viðburðar og hafa lengi hlakkað til. Fermingarundirbúningurinn er skemmtilegur og nútímalegur, lífsleiknikennsla í fyrirrúmi.“

Ræktið vináttu ykkar við börnin

Edda segir lífið áskorun og ýmislegt komi upp á yfirborðið á tímamótum í lífinu, eins og fermingardagurinn er. „Kannski er það líka bara gott. En ég hvet foreldra til að setja börnin sín í öndvegi og gera þennan dag sérstakan, sama á hverju gengur; gleyma áhyggjum og njóta saman. Þetta eru dásamleg börn sem við eigum og eru að fermast, leyfum þeim að finna að þetta er mikilvægur dagur sem þau eiga skilið.“

Vill Edda koma einhverju á framfæri að lokum?

„Það sem mig langar að benda foreldrum á er að stilla saman strengi fyrir ferminguna og rækta vináttuna við börnin sín, sem er að mínu mati það dýrmætasta í þessu lífi. Ég mæli alltaf með því að foreldrarnir lesi Con Dios-fermingarkverið, annaðhvort fái það að láni eða lesi með börnunum.

Þar eru svo magnaðar sögur; um vináttuna, það að vera góð fyrirmynd og leiðtogi, bænina og jafnvel einelti sem öllum er hollt að spegla sig í. Bókin fjallar um Guð, lífið og manneskjurnar út frá forsendum barna á fermingaraldri, hún er litrík og fallega myndskreytt og ég get fullvissað ykkur um að hún nær til okkar allra.“