— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Shu Rui Karlsdóttir fermist í Neskirkju 8. apríl. Fermingarundirbúningurinn hefur staðið yfir í allan vetur og er fjölskyldan spennt að taka á móti gestum, en veislan verður haldin í safnaðarheimili Neskirkju. Marta María | mm@mbl.is

Kristín er mjög spennt fyrir fermingardeginum sínum. Hún segir að það verði örugglega svolítið stressandi að fermast en á sama tíma mjög gleðilegt. Það hefur aldrei komið neitt annað til greina hjá Kristínu en að fermast. Þegar hún er spurð út í fermingarundirbúninginn segir hún að hann hafi verið ákaflega ánægjulegur.

„Hann hefur verið mjög góður. Við höfum svolítið verið að reyna að finna kjól og finna út úr því hvað ætti að vera í veislunni,“ segir Kristín og játar að mamma hennar hafi verið prímus mótorinn í fermingarundirbúningnum. Kristín hefur þó skýrar hugmyndir um hvernig hún vill hafa fermingardaginn sinn.

Þegar talið berst að fermingarkjólnum segir Kristín að hún hafi haft mjög ákveðnar hugmyndir um kjólinn, en það hafi kannski verið örlítið snúnara að finna hann.

„Mig langaði að vera í hvítum blúndukjól og loksins fundum við hann. Mér fannst fermingarlegt að vera í hvítum kjól.“

Spurð í hverju hún ætli að vera við kjólinn segist hún vera að hugsa um að vera í annaðhvort hvítum eða svörtum hælaskóm en þær mæðgur eigi eftir að finna þá.

„Kjóllinn nær niður fyrir hné og ég geri ráð fyrir að vera berleggjuð við kjólinn,“ segir hún.

Kristín ætlar að vera með krullur í hárinu á fermingunni og hafa það slegið.

„Ég vil hafa krullur og helst blóm í hárinu.“

Kristín er ekki farin að farða sig dags daglega en á fermingardaginn hyggst hún setja á sig maskara og mögulega smá gloss.

„Ég hef málað mig áður en ég nota ekki farða dags daglega,“ segir hún.

Fermingarveisla Kristínar verður haldin síðdegis 8. apríl og verður lambalæri og bearnaise-sósa með. Í forrétt verður sushi og í eftirrétt verður marengsterta og ferskir ávextir.

Fermingargjafir leika stórt hlutverk á fermingardaginn. Þegar Kristín er spurð að því hvað hana langi helst í nefnir hún peninga.

„Ég er ekki að búast við neinum rosalegum gjöfum. Ég vona að ég fái annaðhvort fartölvu eða útlandaferð frá mömmu minni og pabba en annars er ég ekki mikið að hugsa um þetta,“ segir Kristín.