— Thinkstockphotos.
Talnabönd hafa verið vinsæl lengi. Í þessari grein er fjallað um Maríubænina, sem er stór hluti af Rósakransbæninni sem beðin er með talnabandinu. Þegar María mætti Gabríel erkiengli ávarpaði hann hana með þessari bæn, sem enn í dag er í hávegum höfð. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Maríubæn

Heil sért þú María, full náðar.

Drottinn er með þér; blessuð ert þú meðal kvenna,

og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús.

Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum,

nú og á dauðastundu vorri.

Amen.

Rósakransbænin

Stór hluti Rósakransbænarinnar, þar sem notast er við talnaband við bænir er Maríubænin. Fleiri bænir eru hluti af Rósakransbæninni og eru perlur talnabandsins notaðar til að telja bænirnar.

Maríubænin kemur fram í Biblíunni, þegar Gabríel erkiengill heimsækir Maríu móður Jesú ávarpar hann hana með bæninni áður en hann tilkynnir henni að hún sé sú sem hefur orðið fyrir vali Guðs til að bera son hans Jesú sem yrði eingetinn.

Bænahugleiðsla

Bænin þykir áhrifamikil á margan hátt. Þeir sem biðja bænarinnar reglulega, gera það sem hluta af Rósakransbæninni og segja að bænin færi þeim frið og heilagan anda.

Bænin er sögð vera sterk fyrir margar sakir en þeir sem hafa þjálfast í að hugleiða bænina og biðja fyrir þeim sem eru sjúkir inn á milli í bæninni, þeim sem eru að deyja og þeim sem veikir eru, segjast fá mikið þakklæti og frið í hjartað.

Trúaðir segja bænir sem farið er með fylgja þeim sem beðið er fyrir og safnast fyrir á himnum. Talað er um fyrirbænir og bænaefni og eru fjölmargir bænahópar víða um landið sem biðja bænir fyrir þá sem þurfa með sínum hætti.

Maríurnar settar í tónlist

Ávarp Gabríels „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs“ hefur orðið tilefni mikillar og fagurrar kirkjutónlistar og vart hægt að kasta tölu á allar Ave Maríurnar sem sungnar eru Maríu til vegsemdar. Við eigum okkar fögru Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns fyrir utan aðra dýrðaróða til Maríu.

Myndlistarmenn hafa einnig gert þessum viðburði í Biblíunni skil. Slík listaverk er helst að finna í listasöfnum erlendis eða í kaþólskum kirkjum. En þess má geta að Maríubænarinnar sem og Rósakransbænarinnar er beðið af mörgum sem iðka kaþólska trú daglega.