Hvammsvirkjun Hagalón afmarkast af Þjórsárdalsvegi að norðan og varnargörðum að sunnan. Gróður verður á utanverðri stíflu. Stöðvarhúsið á að falla inn í landslagið. Svæðið á að verða opið gestum.
Hvammsvirkjun Hagalón afmarkast af Þjórsárdalsvegi að norðan og varnargörðum að sunnan. Gróður verður á utanverðri stíflu. Stöðvarhúsið á að falla inn í landslagið. Svæðið á að verða opið gestum. — Tölvuteikning/VA arkitektar
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Unnið er að hönnun mannvirkja fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar og að öðrum mótvægisaðgerðum með það fyrir augum að mannvirkin falli sem best að landslagi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Unnið er að hönnun mannvirkja fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar og að öðrum mótvægisaðgerðum með það fyrir augum að mannvirkin falli sem best að landslagi. Landsvirkjun hefur ekki áform um að hefja framkvæmdir við virkjunina í ár.

Skipulagsstofnun hefur gefið út álit á seinna umhverfismati Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Í því voru eingöngu metin áhrif á landslag og ásýnd lands og á ferðaþjónustu og útivist. Gamla matið frá 2003 er í fullu gildi varðandi önnur atriði. Veiðifélag Þjórsár og fleiri aðilar kærðu það til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að áhrif á vatnalíf og vatnafar voru ekki metin að nýju en úrskurðarnefndin hafnaði kröfum þeirra í síðasta mánuði.

Verulega neikvæð áhrif

Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að áhrif virkjunarinnar á landslag verði verulega neikvæð þar sem umfangsmiklu svæði verði raskað og margir verði fyrir neikvæðum áhrifum breytinganna. Þá verði áhrifin varanleg og óafturkræf. Auk sjónrænna áhrifa á landslag telur stofnunin að framkvæmdin muni hafa áhrif á upplifun þeirra sem stunda útivist á svæðinu. Nefnt er að árniður í straumþungu fljóti muni víkja fyrir lóni og vatnslitlum farvegi á kafla. Þá er sérstaklega nefnt að breytt landslag muni sjást frá veginum upp í Þjórsárdal sem er aðalleiðin upp á hálendið, og heimilum og sumarhúsum. Áhrifin á útivist og ferðaþjónustu eru metin talsvert neikvæð.

Skipulagsstofnun telur mikilvægt að ráðist verði í boðaðar mótvægisaðgerðir. Að því vinnur Landsvirkjun. Ólöf Rós Káradóttir, verkefnisstjóri á þróunarsviði, segir að reynt verði að láta öll mannvirki virkjunarinnar falla sem best að landslaginu eins og það er. Það er haft í huga við mótun landsins og uppgræðslu. Nefnir hún að stíflugarðarnir verði klæddir með jarðvegi og gróðri að utanverðu. Þá verði formið á stíflugörðum sem liggja upp með lóninu að austanverðu ekki þráðbeint heldur í mýkri línum og reynt að styrkja tanga og annað landslag.

Greiða leið gesta um svæðið

Þá segir Ólöf Rós að mikið sé lagt í útlit bygginga þannig að þær verði áhugaverðar um leið og þær falli vel að landinu. Hún segir að Landsvirkjun vilji leita leiða til að hafa virkjanasvæðið opið almenningi til útivistar. Þar verði göngustígakerfi, til dæmis göngu- og reiðleið yfir stífluna. „Öll mannvirki sem þarf til að framleiða rafmagn með vatnsafli eru á frekar aðgengilegu og fallegu svæði og okkur langar til að gefa gestum kost á að njóta þess,“ segir Ólöf.

Einnig er unnið að rannsóknum á lífríki árinnar, ekki síst á laxastofninum. Búið er að hanna laxastiga og seiðafleytu til að hjálpa fiskinum að synda eftir árfarveginum og tryggt að nægt vatn verði í farvegi árinnar á milli stíflu og útfalls.

Ekki hefur verið ákveðið hvenær framkvæmdir hefjast við Hvammsvirkjun. Landvirkjun er að ljúka miklu framkvæmdaskeiði í ár með byggingu Þeistareykjastöðvar og stækkun Búrfellsvirkjunar.