Mér leið eins og ég ætti sjaldgæfan eðalstein í mínum fórum þegar ég hélt af stað með vinum mínum á EM í fótbolta fyrir tveimur árum. Ég hafði jú haft rænu á að tryggja mér landsliðstreyjuna tímanlega, en hún var lengi vel ófáanleg á landinu.
Mér leið eins og ég ætti sjaldgæfan eðalstein í mínum fórum þegar ég hélt af stað með vinum mínum á EM í fótbolta fyrir tveimur árum. Ég hafði jú haft rænu á að tryggja mér landsliðstreyjuna tímanlega, en hún var lengi vel ófáanleg á landinu. Eftirspurnin virðist hafa verið mun meiri en ítalski framleiðandinn Errea reiknaði með, og ýmsir þurftu að finna aðrar leiðir til að fara bláklæddir til Frakklands.

Vonandi verður eitthvað annað uppi á teningnum í ár. Þau sem vilja klæðast landsliðstreyjunni ættu að fá að gera það, og allir græða. Talandi um það þá finnst mér reyndar 12 þúsund króna verð fyrir fullorðinstreyju alveg sleppa til, en allt að því glæpsamlegt að rukka 11 þúsund fyrir treyju ætlaða börnum.

Annars er það nú eitt skrýtnasta verkefni sem ég hef fengið í mínu starfi, að fara á þennan kynningarviðburð á Laugardalsvelli í gær til að fjalla um föt. Ég hef ekki mikinn áhuga á fötum og valdi mér alls ekki þennan starfsvettvang til að geta skrifað fatafréttir.

Að því sögðu þá hef ég samt bara gaman af því og tel ánægjulegt að KSÍ geri mikið úr vali á nýrri landsliðstreyju. Með því er sambandið að bregðast við miklum áhuga, sem svo sannarlega virðist vera til staðar. Það er vel. Síðustu daga hefur verið „hitað upp“ með því að rifja upp útlit fyrri landsliðsbúninga, og sérstakt myndskeið til að kynna nýja búninginn var glæsilegt.

Ég hef ekki sterka skoðun á treyjunni, og enga skoðun á stuttbuxunum eða sokkunum þar sem enn er bið á að heildarbúningurinn verði birtur, en hún virðist bara vera flott. Ég get kannski tekið undir orð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta, sem eðlilega var viðstaddur þennan stórviðburð í gær, en hann sagði í glettni: „Treyjan lítur vel út. Hér með er það ákveðið.“