Birgir Dýrfjörð
Birgir Dýrfjörð
Eftir Birgi Dýrfjörð: "Ætli Þórarinn Tyrfingsson og Vogur séu þá einhvers konar ögrun við gyðingdóm og íslam?"

Það olli mér og mörgum öðrum miklum vonbrigðum þegar biskup íslensku þjóðkirkjunnar gaf út þá yfirlýsingu að kirkjan væri andvíg lagasetningu, sem bannaði umskurð ólögráða sveinbarna.

Ég var sannfærður um að í þessu mannréttindamáli myndi kirkjan standa með börnunum. Að umskurði þeirra yrði frestað þar til þau næðu þeim þroska að taka sjálf ákvarðanir um að gera þannig sáttmála við Guð sinn.

Undarleg rök

Sem rök móti banni við limlestingunni segir í yfirlýsingu biskups: „Hættan sem blasir við verði frumvarpið að lögum er, að gyðingdómur og íslam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar, sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir.“

Fylgjendur þessa sjónarmiðs biskupsins fullyrða, að með samþykkt frumvarpsins væri Alþingi að glæpavæða tiltekin trúarbrögð. Sú glæpavæðing samrýmist ekki trúfrelsi íslenskra laga, segja þeir.

„Glæpavæðingunni“ fagnað

Upphafsorðin í yfirlýsingu biskupsins hljóða þó þannig: „Því er fagnað að Ísland hafi verið ein þeirra þjóða, sem lögðu til ályktun um bann við limlestingum á kynfærum kvenna.“ (Samþykkt Sameinuðu þjóðanna).

Miðað við yfirlýsingu biskupsins, hér að ofan, þá blasir við að Sameinuðu þjóðirnar hafa nú þegar kveðið upp dóm yfir glæpsamlegum trúarbrögðum. Um það þarf ekki að deila.

Því er spurt, hver otar þá svo illri flugu í munn biskupsins að hún segi að verði frumvarpið, sem bannar limlestingu ólögráða drengja að lögum, þá sé hættan sú: „að gyðingdómur og íslam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar, sem aðhyllast þau trúarbrögð, verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir.“

Af hverju fagnar biskupinn aðild Íslands að banni sameinuðu þjóðanna á misþyrmingu á kynfærum kvenna og leggst svo í sömu yfirlýsingu gegn samþykkt frumvarps, sem bannar limlestingu á ólögráða sveinbarni?

Væri ég bænheitur maður, þá bæði ég Guð að gefa biskupnum visku hjartans og gæta hans fyrir ráðgjöfum sínum.

Móse og Lögmálið

Af hverju má sá sáttmáli, sem gyðingur gerir við Guð sinn með umskurði sínum, af hverju má hann ekki bíða til þess aldurs að hann megi sjálfur samþykkja hann?

Svörin sem ég fæ oftast eru að Lögmálið, sem Abram fékk milliliðalaust frá Guði, mæli fyrir um umskurð á áttunda degi. En er Lögmálið óumbreytanlegt? Í V. Mósebók 21. kafla 19.-21. versi segir hvernig foreldrum ber að fara með drykkfelldan son. Þau skulu fara með hann til öldunganna og segja: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll, og vill ekki hlýða okkur; hann er svallari og drykkjurútur. Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana; og þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér, og allur Ísrael skal heyra það og skelfast.“ Þannig er Lögmálið, – lóðbeint frá Guði.

Ætli Þórarinn Tyrfingsson og Vogur séu þá einhvers konar ögrun við gyðingdóm og íslam?

Þessi spurning mín er ekki sett fram af hótfyndni, heldur til að benda á, að það er urmull af atriðum í Lögmálinu, sem eru dauðir bókstafir í dag, því Lögmálið tekur mið af túlkun kynslóðanna á hverjum tíma.

Es.: Að gefnu tilefni upplýsir greinarhöfundur að hann er andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju.

Höfundur er rafvirkjameistari.

Höf.: Birgi Dýrfjörð